Knattspyrnukonan Heiða Ragney Viðarsdóttir skrifaði í síðasta mánuði undir tveggja ára samning við Breiðablik eftir þriggja ára dvöl hjá nágrönnunum í Stjörnunni.
„Mér finnst þetta ennþá svolítið skrítið. Maður hefur spilað á móti Blikum allt sitt líf og alltaf verið mjög erfiðir leikir. Mér finnst mjög skrítið að vera allt í einu komin í græna litinn en það er mjög gaman og ég er mjög spennt fyrir þessu,“ segir Heiða í samtali við Morgunblaðið.
Fleiri íslensk félög höfðu áhuga á að semja við hana en að lokum leist Heiðu best á Breiðablik.
„Það voru nokkur lið sem höfðu samband og ég fór á nokkra fundi með öðrum liðum.
Ég endaði á að velja Breiðablik af því að mér leist best á stemninguna þar og þjálfarateymið finnst mér rosalega spennandi,“ segir hún.
Englendingurinn Nik Chamberlain tók við liðinu eftir síðasta tímabil og Edda Garðarsdóttir var síðar ráðin aðstoðarþjálfari hans. Þau unnu saman um árabil hjá kvennaliði Þróttar úr Reykjavík.
„Nik heillaði á fundinum og mér fannst þetta spennandi verkefni,“ bætir Heiða við.
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag