Lennon leggur skóna á hilluna

Steven Lennon í leik með FH gegn Stjörnunni.
Steven Lennon í leik með FH gegn Stjörnunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skoski knattspyrnumaðurinn Steven Lennon hefur lagt skóna á hilluna eftir langan og farsælan feril hér á landi en hann er í fjórða til fimmta sæti yfir markahæstu leikmenn efstu deildar karla og eini erlendi leikmaðurinn sem hefur skorað 100 mörk í deildinni.

Lennon skýrði frá þessu í viðtali við fótbolti.net en hann hefur leikið hér á landi í þrettán ár, fyrst með Fram í þrjú ár en með FH frá og með 2014, að undanskildum seinni hluta síðasta tímabils þegar hann var í láni hjá Þrótti í Reykjavík.

Lennon, sem er 36 ára gamall, hefur skorað 101 mark í 215 leikjum í efstu deild og er næstleikjahæsti erlendi leikmaðurinn í deildinni, einum leik á eftir Kennie Chopart og jafn Pablo Punyed.

Hann varð Íslandsmeistari með FH árin 2015 og 2016 og varð markakóngur efstu deildar árið 2020 þegar hann skoraði 17 mörk fyrir FH.

Lennon er næstmarkahæsti leikmaður FH í efstu deild karla með 88 mörk og sá sjöundi leikjahæsti með 178 leiki.

Lennon lék með skosku liðunum Rangers og Partick Thistle, enska liðinu Lincoln, írska liðinu Dundalk og velska liðinu Newport áður en hann kom til Íslands og gekk til liðs við Fram árið 2011. Þá lék hann með Sandnes Ulf í Noregi eftir að hafa yfirgefið Fram haustið 2013, þar til hann gekk til liðs við FH sumarið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert