„Þetta var eini leikurinn minn í efstu deild og ég fékk þau skilaboð að ég ætti að elta Sveinbjörn Hákonarson sem var einn mesti jálkurinn í Skagaliðinu,“ sagði Vignir Már Þormóðsson, frambjóðandi til formanns Knattspyrnusambands Íslands, í Dagmálum.
Vignir Már, sem er 56 ára gamall, er einn þeirra þriggja sem gefur kost á sér í formannsembættið ásamt þeim Guðna Bergssyni og Þorvaldi Örlygssyni.
Vignir Már á að baki einn leik í efstu deild með uppeldisfélagi sínu KA en hann kom inn á sem varamaður gegn ÍA í júlí árið 1987.
„Við flugum í þennan leik frá Akureyri og við lentum undir Hafnarfjalli og vélin svoleiðis hoppaði því það var svo rosalega vindasamt,“ sagði Vignir.
„Það voru eldri menn þarna eins og Hinrik Þórhallsson, sem voru á seinni hluta ferilsins, og hann var náfölur eftir þetta því hann var svo flughræddur,“ sagði Vignir meðal annars.
Viðtalið við Vigni Má í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.