Trúir því enginn þegar ég segi þessa sögu

„Fyrsti leikurinn var í raun mesti brandarinn og það trúir því eiginlega enginn þegar ég segi þessa sögu,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, frambjóðandi til formanns Knattspyrnusambands Íslands, í Dagmálum.

Þorvaldur, sem er 57 ára gamall, er einn þeirra þriggja sem gefur kost á sér í formannsembættið ásamt þeim Guðna Bergssyni og Vigni Má Þormóðssyni.

Þú ert númer átta

Þorvaldur lék með Nottingham Forest í efstu deild Englands frá 1989 til 1993 en hann lék sinn fyrsta leik fyrir félagið árið 1989 þegar Brian Clough var stjóri liðsins, þá nýkominn frá KA.

„Ég var búinn að vera þarna í viku og við fengum að vita það á föstudeginum hverjir yrðu í hópnum fyrir leikinn á laugardeginum gegn Southampton,“ sagði Þorvaldur.

„Ég sé nafnið mitt á korktöflunni á föstudeginum og rölti upp á völl laugardeginum. Þegar ég mæti á völlinn segir einhver vallarstarfmaður mér að ég geti keypt miða á leikinn við innganginn.

Steve Sutton markvörður labbar framhjá okkur og útskýrir fyrir honum að ég sé nýr leikmaður hjá félaginu. Aðstoðarþjálfarinn kemur svo inn í klefa, tilkynnir liðið, og þá er ég númer átta. Ég var búinn að æfa þarna í viku og er settur beint í liðið.

Svo kemur þjálfarinn (Brian Clough) og ég spyr hann hvar ég eigi að spila og hann segir bara að ég sé númer átta og síðan var það ekki rætt neitt frekar,“ sagði Þorvaldur meðal annars.

Viðtalið við Þorvald í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Þorvaldur Örlygsson.
Þorvaldur Örlygsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert