Leitað að eftirmanni Klöru

Vanda Sigurgeirsdóttir hætti sem formaður KSÍ á laugardaginn og Klara …
Vanda Sigurgeirsdóttir hætti sem formaður KSÍ á laugardaginn og Klara Bjartmarz kveður knattspyrnusambandið síðar í þessari viku. mbl.is/Eyþór Árnason

Þorvaldur Örlygsson, nýkjörinn formaður Knattspyrnusambands Íslands, vonast til þess að nýr framkvæmdastjóri sambandsins komi sem fyrst til starfa.

Klara Bjartmarz lýkur störfum hjá KSÍ síðar í vikunni eftir þrjátíu ár hjá sambandinu og tekur við nýju starfi hjá Landhelgisgæslunni.

Þorvaldur sagði við mbl.is að ráðning nýs framkvæmdastjóra væri afar mikilvægt verkefni.

„Við getum sagt að starf framkvæmdastjóra sé það mikilvægasta hjá KSÍ, oft mikilvægara en starf formannsins, og það er lykilatriði að fá góðan framkvæmdastjóra til að taka við. Starfið hefur verið auglýst og umsóknarfrestur rennur út á þriðjudag. Þá förum við yfir umsóknirnar. Það verður ekki auðvelt að koma í stað Klöru sem hefur starfað lengi og staðið sig mjög vel, og býr yfir mikilli kunnáttu og þekkingu. Ég efast samt ekki um að fjölmargt hæft fólk sækir um starfið.

Um leið og nýr framkvæmdastjóri er kominn er lykilatriði að fá skýra mynd af hlutverkaskiptingu milli formanns, framkvæmdastjóra og fjármálastjóra og að þeir vinni vel saman. Þar er ég ekki að gagnrýna þá sem sinntu þessum hlutverkum áður en hreyfingin vill hafa þetta allt á hreinu og það þarf því að skerpa á þessu til þess að vinnan verði skilvirkari og betri og skili meiri árangri,“ sagði Þorvaldur.

Ítarlegt viðtal er við Þorvald í Morgunblaðinu sem kemur út í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert