Guðjón sæmdur gullmerki ÍA

Leikmenn ÍA tollera Guðjón Þórðarson eftir bikarúrslitaleikinn á Laugardalsvellinum árið …
Leikmenn ÍA tollera Guðjón Þórðarson eftir bikarúrslitaleikinn á Laugardalsvellinum árið 1993 þegar ÍA vann Keflavík 2:1. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Guðjón Þórðarson, knattspyrnuþjálfari og fyrrverandi leikmaður, var í gær sæmdur gullmerki ÍA fyrir framlag sitt til knattspyrnu á Akranesi.

Guðjón lék alls 392 leiki fyrir ÍA á árunum 1972 til 1986 og skoraði í þeim 16 mörk. Þar af voru 213 leikir í efstu deild.

Á leikmannaferlinum varð hann fimm sinnum Íslandsmeistari með ÍA og bikarmeistari fimm sinnum.

Guðjón þjálfaði ÍA nokkrum sinnum á ferlinum, árið 1987, árin 1991 til 1993, 1996 og 2007 til 2008.

Á árunum 1991 til 1993 unnu Skagamenn 1. deildina á fyrsta tímabilinu og urðu svo Íslandsmeistarar árin tvö á eftir auk þess að vinna bikarmeistaratitilinn árið 1993.

Árið 1996 tók hann aftur við liðinu og vann ÍA þá öðru sinni tvöfalt, Íslands- og bikarmeistaratitilinn, undir stjórn Guðjóns.

„Guðjón hefur staðið öðrum þjálfurum framar á Íslandi í áraraðir og þótti brautryðjandi í þjálfun. Hann hefur sýnt árangur sem erfitt er að leika eftir.

Það er sannur heiður að heiðra Guðjón með gullmerki fyrir hans frábæra framlag til knattspyrnunnar á Akranesi,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild ÍA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert