Átján ára með tvennu í úrvalsdeildarslagnum

Róbert Frosti Þorkelsson skoraði tvö.
Róbert Frosti Þorkelsson skoraði tvö. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Stjarnan vann öruggan sigur á HK, 4:0, á Stjörnuvellinum í þriðja riðli deildabikars karla í fótbolta í kvöld.

Hinn átján ára gamli Róbert Frosti Þorkelsson var í stuði fyrir Stjörnuna og skoraði tvö mörk, en hann gerði annað og þriðja mark Garðbæinga.

Helgi Fróði Ingason og Emil Atlason komust einnig á blað fyrir Stjörnuna, sem er í fjórða sæti riðilsins með fjögur stig. HK er með eitt stig.

Í sama riðli vann Fjölnir sigur á Njarðvík í Reykjaneshöllinni, 3:0, en bæði lið leika í 1. deild. Máni Austmann Hilmarsson, Óliver Dagur Thorlacius og Kristófer Dagur Arnarsson skoruðu mörk Fjölnis.

Fjölnir er í þriðja sæti með sjö stig, Njarðvík er í fimmta með eitt.

Í riðli 2 vann úrvalsdeildarlið Fylkis öruggan sigur á Þrótti úr Reykjavík, 3:0, í Árbænum. Ómar Björn Stefánsson gerði tvö mörk fyrir Fylki og Guðmundur Tyrfingsson eitt. Fylkir er í þriðja sæti með sex stig og Þróttur í sætinu fyrir neðan, einnig með sex stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert