Knattspyrnumaðurinn Birkir Heimisson sem hefur leikið með Val undanfarin ár er genginn til liðs við uppeldisfélagið sitt, Þór á Akureyri, og hefur samið við það til þriggja ára.
Þórsarar skýrðu frá þessu á samfélagsmiðlum sínum en Birkir, sem er 24 ára gamall miðjumaður, snýr þar með heim eftir átta ára fjarveru.
Birkir lék 16 ára gamall með meistaraflokki Þór í 1. deildinni árið 2016 en gekk þá til liðs við hollenska félagið Heerenveen og lék með unglinga- og varaliði þess í fjögur ár.
Hann sneri aftur til Íslands fyrir tímabilið 2020, samdi þá við Valsmenn og hefur leikið með þeim undanfarin fjögur tímabil. Hann á að baki 82 leiki með Val í efstu deild og hefur skorað í þeim fimm mörk, og lék áður 28 leiki með yngri landsliðum Íslands.
Þetta er gríðarlegur liðsstyrkur fyrir Þórsara sem ætla sér greinilega stóra hluti í 1. deildinni í ár.