Grindvíkingar bæta enn við leikmanni

Brynjar Björn Gunnarsson þjálfar Grindvíkinga sem virðast ætla að mæta …
Brynjar Björn Gunnarsson þjálfar Grindvíkinga sem virðast ætla að mæta sterkir til leiks á Íslandsmótinu þrátt fyrir erfiðleika og óvissu vegna náttúruhamfaranna. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Grindvíkingar halda áfram að styrkja lið sitt fyrir keppnina í 1. deild karla í knattspyrnu á komandi tímabili og hafa nú fengið danskan leikmann í sínar raðir.

Sá heitir Mathias Munch Larsen, tvítugur sóknarmaður, sem hefur leikið í neðri deildum Danmerkur með Dalum undanfarin tvö ár en er alinn upp hjá Næsby.

Þar með eru Grindvíkingar komnir með fjóra nýja leikmenn erlendis frá í vetur en áður voru þrír Slóvenar komnir til liðs við þá, Éric Vales, Matevz Turkus og Josip Krznaraic.

Grindvíkingar hafa farið vel af stað á undirbúningstímabilinu og eru í harðri baráttu um sæti í undanúrslitum deildabikarsins þar sem þeir mæta Keflvíkingum í mikilvægum leik í kvöld.

Ekki hefur verið staðfest hvar Grindvíkingar leika heimaleiki sína á komandi tímabili en Grindavíkurvöllur er enn skráður sem þeirra heimavöllur í 1. deildinni í niðurröðun deildarinnar á heimasíðu KSÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert