Valur hafði betur gegn ÍR í miklum markaleik í deildabikar karla í fótbolta í kvöld en leikið var á ÍR-vellinum í Breiðholti. Urðu lokatölur 6:3.
Aron Daníel Arnalds og Guðjón Máni Magnússon komu ÍR-ingum óvænt í 2:0 á fyrstu 16 mínútunum. Valsmenn svöruðu með mörkum frá Birki Má Sævarssyni og Aroni Jóhannssyni og var staðan í hálfleik 2:2.
Birkir Már skoraði sitt annað mark er hann kom Val í 3:2 snemma í seinni hálfleik og þeir Patrick Pedersen, Tryggvi Hrafn Haraldsson og Adam Ægir Pálsson komu Valsliðinu í 6:2. Alexander Kostic minnkaði muninn í blálokin.
Staðan í riðli 2: Valur 12, ÍR 9, Fylkir 6, Þróttur R. 6, Fram 3, ÍBV 0.
Þá skildu grannarnir í Keflavík og Grindavík jafnir, 3:3 í Reykjaneshöllinni. Ásgeir Páll Magnússon og Nacho Heras komu Keflavík tvisvar yfir í fyrri hálfleik. Fyrst jafnaði Adam Árni Róbertsson og síðan Sigurjón Rúnarsson og var staðan í leikhléi 2:2.
Stefan Alexander Ljubicic kom Keflavík yfir í þriðja skipti á 54. mínútu með marki úr víti. Grindavík átti hins vegar lokaorðið, því Sölvi Snær Ásgeirsson jafnaði í uppbótartíma og þar við sat.
Staðan í riðli 1: Grindavík 10, Keflavík 8, Breiðablik 6, FH 6, Vestri 1, Grótta 0.