Gamla ljósmyndin: Sannfærandi gegn Serbum

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Kvennalandslið í knattspyrnu lék á dögunum tvo spennandi leiki gegn Serbíu þar sem Ísland hafði betur eftir erfiða leiki. Dregið hefur saman með liðunum á síðustu árum en Ísland vann nokkra sannfærandi sigra á Serbíu fyrr á öldinni. 

Á meðfylgjandi mynd sinnir fyrirliðinn Katrín Jónsdóttir ungum aðdáendum á Laugardalsvelli að loknum 5:0-sigri gegn Serbíu í undankeppni HM þann 15. ágúst árið 2009. Tæp fimmtán ár hafa liðið og ungu aðdáendurnir eru fullorðið fólk núna. Ljósmyndarinn Eggert Jóhannesson smellti af en hann myndar enn fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Katrín skoraði fjórða mark Íslands í leiknum en á þessum árum var hún ótvíræður leiðtogi liðsins og naut liðið þá mikillar velgengni. Ísland hafnaði í 2. sæti riðilsins á eftir firnasterku liði Frakka sem fór í lokakeppni HM. 

Katrín var til að mynda fyrirliði Íslands þegar liðið komst í fyrsta skipti í lokakeppni stórmóts en lokakeppnin fór fram í Finnlandi árið 2009. Var hún einnig 17 ára nýliði í landsliðinu sem komst í 8-liða úrslit á EM og tapaði þar naumlega fyrir Englendingum haustið 1994. 

Katrín var annar knattspyrnumaðurinn til að leika 100 A-landsleiki fyrir Íslands hönd í knattspyrnunni og fyrsta konan. Einungis Rúnar Kristinsson var á undan henni að ná þessum áfanga. Alls lék hún 133 A-landsleiki og skoraði í þeim 21 mark en Katrín lék lengi á miðjunni áður en hún færði sig aftur í miðvörðinn á efri knattspyrnuárum. 

Hún átti leikjamet landsliðsins lengi, þar til Sara Björk Gunnarsdóttir sló það. Þá var Katrín um árabil leikjahæsta í íslenska knattspyrnukonan í deildakeppni með 336 leiki í Svíþjóð, Noregi og á Íslandi en núna er hún sú fjórða leikjahæsta.

Katrín var um fermingaraldurinn þegar hún kom inn í leikmannahópinn hjá Breiðabliki árið 1991. Hún lék einnig með Breiðabliki og Val hér heima en erlendis með Kolbotn og Amazon Grimstad í Noregi, og Djurgården og Umeå í Svíþjóð áður en hún lék gott heita árið 2013.

Katrín hafnaði í 7. sæti í kjörinu á íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 2008. 

Eins og margir landsmenn þekkja tókst Katrínu að mennta sig sem læknir meðfram knattspyrnuferlinum en tæplega eru mörg sambærileg dæmi til um slíkt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert