Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík gerðu góða ferð til Dalvíkur í kvöld og unnu sannfærandi 5:0-sigur á Dalvík/Reyni í deildabikar karla í fótbolta.
Daði Berg Jónsson og Danijel Dejan Djuric komu Víkingsliðinu í 2:0 í fyrri hálfleik. Ari Sigurpálsson gerði svo tvö mörk í seinni hálfleik og Pablo Punyed eitt.
Með sigrinum fór Víkingur á topp riðils fjögur með níu stig, en Dalvík/Reynir rekur lestina án stiga.
Víkingar hafa lokið sínum leikjum og bæði ÍA og KA, sem eru með sjö stig og eiga einn leik eftir, geta unnið riðilinn og komist í undanúrslit. Bæði lið eiga eftir að mæta Leikni á útivelli en Leiknismenn myndu vinna riðilinn með því að vinna báða leikina.
Staðan í riðli 4: Víkingur R. 9, ÍA 7, KA 7, Leiknir R. 5, Afturelding 4, Dalvík/Reynir 0.