HK hefur fengið knattspyrnukonuna Hildi Maríu Jónasdóttur að láni frá FH út tímabilið.
Miðjukonan, sem er uppalin hjá Breiðabliki, lék sína tvo fyrstu leiki í efstu deild með FH á síðustu leiktíð.
Hún hefur leikið 56 leiki í 1. deild og skorað í þeim tvö mörk. Þá hefur hún skorað tvö mörk í sextán leikjum með Augnabliki í 2. deild.
HK hafnaði í þriðja sæti 1. deildarinnar á síðustu leiktíð, þremur stigum frá Fylki sem varð í öðru sæti og fór upp í Bestu deildina.
Hildur er sem stendur stödd í Bandaríkjunum þar sem hún er í háskólanámi, en hún hefur æfingar með HK í maí.