Bakvörðurinn á heimleið

Alex Freyr Elísson í leik með Fram í Bestu deildinni …
Alex Freyr Elísson í leik með Fram í Bestu deildinni sumarið 2022. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Knattspyrnumaðurinn Alex Freyr Elísson er á leið til uppeldisfélagsins Fram frá Breiðabliki.

Alex Freyr gekk til liðs Breiðablik fyrir síðasta tímabil en kom lítið við sögu og var svo lánaður til KA síðari hluta þess. Á Akureyri kom hann lítið við sögu vegna meiðsla.

433.is greinir frá því að Alex Freyr sé á heimleið og muni skrifa undir samning við knattspyrnudeild Fram. Samkvæmt Fótbolta.net skrifar hann undir á morgun.

Á ferlinum hefur Alex Freyr, sem er 26 ára hægri bakvörður, spilað 105 leiki fyrir Fram í efstu og 1. deild og skorað tíu mörk. Flesta þeirra lék hann í 1. deild, eða 85.

Lék Alex Freyr svo fjóra leiki fyrir Breiðablik og þrjá fyrir KA síðasta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert