Ísraelsmaðurinn Avram Grant, fyrrverandi knattspyrnustjóri ensku liðanna Chelsea, Portsmouth og West Ham og áður landsliðsþjálfari Ísraels, er afar ósáttur við ummæli Åge Hareide, þjálfara íslenska karlalandsliðsins, um leik Ísraels og Íslands sem fram fer í Búdapest annan fimmtudag, 21. mars.
Haft var eftir Hareide í ísraelska fjölmiðlinum PressTV (án þess að vitna til þess að ummæli Hareide birtust á Vísi) að hann hefði helst ekki viljað mæta Ísrael en Ísland geti ekki hafnað því vegna yfirvofandi refsinga frá UEFA. Hareide sagði þar að sín skoðun væri sú að þessi leikur hefði ekki átt að fara fram vegna ástandsins á Gasa og þess sem Ísraelsmenn hefðu gert konum, börnum og öðrum saklausum borgurum á svæðinu.
Grant, sem er 68 ára gamall og þjálfar nú karlalandslið Sambíu, verður í ítarlegu viðtali í Morgunblaðinu um næstu helgi vegna leiks Ísraels og Íslands. Þegar ummæli Hareide voru borin undir Grant brást hann hart við:
„Ég sá hvað þjálfari Íslands sagði. Ég þekki hann ekki persónulega en ég er ósáttur við að hann skuli blanda íþróttum saman við eitthvað sem hann hefur enga þekkingu á. En ég vil leggja fyrir hann nokkrar spurningar. Fyrst vil ég taka fram að ég er mótfallinn því að almennir borgarar séu fórnarlömb og það hryggir mig þegar slíkt gerist.
En menn verða að muna að þetta hófst allt á fjöldamorði Hamas-liða. Ég vil því spyrja þjálfarann: Hvers vegna sagðir þú ekkert um fjöldamorðin í Ísrael 7. október? Hvers vegna sagðir þú ekki: Ég er niðurbrotinn vegna allra þeirra kvenna sem var nauðgað, vegna barnanna sem voru afhöfðuð, vegna gamla fólksins sem var brennt lifandi? Vegna foreldra sem voru skotin í augsýn barna sinna,“ sagði Grant.
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.