„Það hafa allir rétt á sinni skoðun og hans skoðun kemur mér ekki á óvart,“ sagði Åge Hareide, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag.
Ísraelsmaðurinn Avram Grant, fyrrverandi knattspyrnustjóri ensku liðanna Chelsea, Portsmouth og West Ham og áður landsliðsþjálfari Ísraels, var mjög ósáttur með ummæli íslenska landsliðsþjálfarans í aðdraganda landsleiks Íslands og Ísraels í undanúrslitum umspils fyrir lokakeppni Evrópumótsins í viðtali í Morgunblaðinu í gær.
Hareide lét meðal annars hafa það eftir sér að hann myndi helst ekki vilja spila gegn Ísrael vegna stríðsástandsins á Gasa en Grant kallaði Norðmanninn meðal annars hræsnara vegna ummælanna.
„Hann er frá Ísrael og honum er frjálst að hafa sínar skoðanir,“ sagði landsliðsþjálfarinn.
„Ég þarf ekki að tjá mig neitt sérstaklega um hans ummæli gagnvart mér. Hann hefur rétt á sínum skoðunum og ég á rétt á mínum skoðunum,“ sagði Hareide í stuttu samtali við mbl.is.
Leikur Íslands og Ísraels fer fram í Búdapest í Ungverjalandi, fimmtudaginn 21. mars, en sigurvegarinn úr einvíginu mætir Bosníu eða Úkraínu í Póllandi í úrslitaleik um sæti á EM þann 26. mars.