Þjálfaranum frjálst að velja Albert í landsliðið

Åge Hareide og Albert Guðmundsson.
Åge Hareide og Albert Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Åge Hareide, þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, er frjálst að velja Albert Guðmundsson í íslenska landsliðshópinn á nýjan leik.

Þetta staðfesti Þorvaldur Örlygsson, formaðir KSÍ, í samtali við RÚV en Albert, sem er 26 ára gamall, var kærður fyrir kynferðisbrot í ágúst á síðasta ári.

Ákvörðun tekin í næstu viku

Héraðssaksóknari felldi niður málið í lok síðasta mánaðar og því er þjálfaranum frjáls að velja íslenska sóknarmanninn fyrir komandi landsleik gegn Ísrael í undanúrslitum umspils um sæti á EM hinn 21. mars í Búdapest í Ungverjalandi.

Eva Bryndís Helgadóttir, lögmaður konunnar sem kærði Albert, segir að ákvörðun um að kæra niðurfellingu héraðssaksóknara verði tekin snemma í næstu viku. 

Þorvaldur Örlygsson var ekki tilbúinn að svara því í samtali við RÚV hvaða áhrif slík kæra hefði á stöðu Alberts í landsliðshópnum, fari svo að hann verði valinn á föstudaginn þegar Hareide tilkynnir landsliðshópinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert