Gekk meiri berserksgang en hægt er að búast við af jafn smávöxnum manni

Lið AB í röndóttum treyjum og úrvalslið Íslands árið 1919. …
Lið AB í röndóttum treyjum og úrvalslið Íslands árið 1919. Aftari röð frá vinstri: Chr. Bonde, Leo Frederiksen, Friðþjófur Thorsteinsson, Aage Nyborg, Kristján L. Gestsson, Gunnar Schram, Magnús Guðbrandsson, Helge Scharff, Óskar Norðmann, Samúel Thorsteinsson, Gunnar Aaby, Robert Hansen, Ernst Petersen, Stefan Kieruff, Harry Bendixen, Brit Graae, E. Schwartz (línuvörður), Erik Boas, Edwin Hansen og Benedikt G. Waage dómari. Fremri röð frá vinstri: Stefán Ólafsson, Gísli Pálsson, Pétur Sigurðsson, Páll Andrésson, Tryggvi Magnússon og Svan Rosborg. Ljósmynd/Frambókin

Þegar danska knattspyrnuliðið Akademisk Boldklub, eða AB, frá Kaupmannahöfn kom til Íslands í ágústmánuði árið 1919 var það sannkallaður stórviðburður, í það minnsta fyrir Reykvíkinga og nærsveitamenn.

Þetta var í fyrsta skipti sem erlent íþróttalið sótti Ísland heim og þarna voru á ferð sjálfir dönsku meistararnir sem einnig höfðu unnið meistaramót Kaupmannahafnar með yfirburðum sama ár.

Í liðinu voru margir landsliðsmenn Dana og einn þeirra var meira að segja íslenskur, læknirinn Samúel Thorsteinsson frá Bíldudal, en bróðir hans, Friðþjófur Thorsteinsson, skaraði fram úr á Íslandi um þetta leyti og var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði Fram á þessum árum. Friðþjófur skoraði m.a. tólf mörk í þremur leikjum þegar Fram varð meistari árið 1918.

Samúel Thorsteinsson frá Bíldudal var í stóru hlutverki hjá AB …
Samúel Thorsteinsson frá Bíldudal var í stóru hlutverki hjá AB og var landsliðsmaður Danmerkur. Ljósmynd/Frambókin

Þeir bræður voru án efa fremstu knattspyrnumenn þjóðarinnar. Þarna voru enn 27 ár þar til Ísland spilaði sinn fyrsta landsleik en Danir voru með eitt besta lið Evrópu og Samúel var þar í talsverðu hlutverki og naut mikillar virðingar í Danmörku. Fimm leikmenn úr liði AB, þar á meðal Samúel, höfðu leikið með Dönum gegn Svíum fyrr um sumarið.

Skoruðu ellefu gegn KR

Leikirnir voru fimm talsins og fyrstu þrjá vann AB mjög örugglega, sameiginlegt lið Vals og Víkings 7:0, næst KR 11:2 og síðan Fram 5:0. Frásagnir af tveimur þeirra voru á forsíðu Morgunblaðsins en KR-ingar urðu að láta baksíðuna duga eftir að hafa fengið á sig ellefu mörk.

Friðþjófur Thorsteinsson úr Fram, bróðir Samúels hjá AB, var fremstur …
Friðþjófur Thorsteinsson úr Fram, bróðir Samúels hjá AB, var fremstur knattspyrnumanna á Íslandi á öðrum áratug síðustu aldar. Ljósmynd/Frambókin

Óvæntur íslenskur stórsigur

En það var fjórði leikur ferðarinnar, fyrri viðureign AB við úrvalslið Íslands (Reykjavíkur), sem hefur lengst lifað í minningunni. Íslenska liðið vann þar óvæntan sigur, 4:1.

Í ítarlegri frásögn af leiknum á forsíðu Morgunblaðsins 13. ágúst er íslensku leikmönnunum hælt fyrir frammistöðuna. Þar segir m.a.: „Tryggvi (Magnússon) gekk meiri berserksgang en hægt er að búast við af jafn smávöxnum manni og var hann átrúnaðargoð áhorfenda. Pétur Sigurðsson skifti um ham áður en hann fór út á sviðið á sunnudaginn var og í sama hamnum var hann í gærkveldi og munu allir óska að hann fari aldrei úr honum framar.“

Útreiðartúrinn

En síðan var fjallað um mögulega skýringu á þessum óvæntu óförum Dananna.

„Svo var mál með vexti að Heimboðsnefndin sá að eina ráðið til þess að AB gæti fengið slæma útreið var það að fara með Danina í „útreiðartúr.“ Þetta hreif í fyrrakveld þegar þeir komu úr Firðinum voru þeir allir liðamótalausir um hnén og það sem snert hafði hnakkinn eins og glóandi eldhaf. Liðamótin voru ekki fundin aftur og eldurinn ekki sloknaður í gærkveldi. Og undir þeim kringumstæðum er ekki gott að sparka knetti.“

Voru þeir timbraðir?

Sagan um reiðtúrinn hefur lifað lengi en sumir hafa fullyrt að hún sé ekki allskostar rétt. Aðalástæðan fyrir slæmu ástandi Dananna í leiknum hafi verið gleðskapur að reiðtúrnum loknum. Þeir hafi einfaldlega verið grúttimbraðir vegna sérlega góðra veitinga í Hafnarfirði.

Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert