Ísraelski íþróttablaðamaðurinn Dani Porat er sannfærður um að þeir Alon Hazan, landsliðsþjálfari Ísraels í fótbolta, og Yossi Benayoun, yfirmaður knattspyrnumála og fyrrverandi leikmaður Liverpool, verði reknir úr starfi ef Ísrael tapar fyrir Íslandi í umspili um sæti á lokamóti EM á fimmtudaginn kemur.
Liðin mætast í undanúrslitum í Búdapest. Sigurliðið mætir annað hvort Bosníu eða Úkraínu í hreinum úrslitaleik um sæti á lokamótinu.
„Þeir hafa báðir tekið margar furðulegar ákvarðanir og fólk er byrjað að missa trúna. Við eigum samt von á því að vinna Ísland,“ sagði Porat við mbl.is.
Shon Weissman, leikmaður Salernitana á Ítalíu, er ekki í ísraelska hópnum eftir rifrildi við landsliðsþjálfarann. „Hann fagnaði marki á móti Sviss um daginn með því að skjóta á þjálfarann. Hann hefur ekki verið í liðinu síðan,“ sagði Porat.
Í fjarveru Manor Solomon, leikmanns Tottenham sem er meiddur, eru tveir leikmenn sem Porat segir vert að fylgjast með. Oscar Gloukh hjá Salzburg er gríðarlega öflugur miðjumaður og Anan Khalaili í Maccabi Haifa er hættulegur sóknarmaður, sem er aðeins 19 ára gamall.
„Gloukh er algjör demantur á miðjunni. Hann er mjög útsjónarsamur og góður leikmaður. Hann fær væntanlega í stóra deild í sumar. Khalaili er svo eldsnöggur, jafnfættur og klárar vel,“ sagði Porat að endingu.