Albert spilar þrátt fyrir að niðurfellingin hafi verið kærð

Albert Guðmundsson fyrir æfingu landsliðsins í Búdapest í morgun.
Albert Guðmundsson fyrir æfingu landsliðsins í Búdapest í morgun. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Konan sem kærði knattspyrnumanninn Albert Guðmundsson fyrir kynferðisbrot í ágúst á síðasta ári hefur kært niðurfellingu málsins til ríkissaksóknara.

Það er RÚV sem greinir frá þessu en héraðssaksóknari felldi niður málið í lok síðasta mánaðar og því var Åge Hareide, þjálfara íslenska liðsins, frjálst að velja Albert í landsliðshópinn fyrir komandi landsliðsverkefni.

Karlalandsliðið mætir Ísrael í undanúr­slit­um um­spils um sæti á EM 2024 á fimmtudaginn kemur í Búdapest í Ung­verjalandi.

Frjálst að velja Albert

„Það var ákveðið að þjálfarinn mátti velja hann í landsliðið af því þetta var fellt niður. En við teljum að við viljum láta hann klára þetta verkefni. Stjórn ákvað það að landsliðsverkefnið telst vera hafið, leikmannahópurinn var opinberaður og Albert mun klára þetta verkefni núna,“ sagði Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, í samtali við RÚV.

Formaðurinn var því næst spurður að því hvort til greina kæmi að taka Albert úr hópnum.

„Það sem stjórn KSÍ hafði að leiðarljósi voru reglur sem voru ekki alveg nógu skýrar. Við vildum gera þær skýrari, það er að segja reglur varðandi ákæruferlið. Stjórnin tók það til skoðunar á síðasta fundi að Albert muni klára þetta verkefni, og síðan munum við skoða út frá því,“ sagði Þorvaldur í samtali við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert