Gylfi skoraði en Valur tapaði

Gylfi Þór Sigurðsson hitar upp á Hlíðarenda í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson hitar upp á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

ÍA tryggði sér í kvöld sæti í úrslitaleik deildabikar karla í fótbolta með sigri á Val í vítakeppni á heimavelli Valsmanna á Hlíðarenda. Skagamenn mæta Breiðabliki í úrslitum á miðvikudag eftir viku. 

Albert Hafsteinsson kom ÍA yfir á 12. mínútu en Skagamaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson í liði Vals jafnaði á 40. mínútu.

Var ekkert meira skorað í venjulegum leiktíma og réðust úrslitin því í vítakeppni, þar sem ÍA skoraði úr öllum fimm spyrnum sínum gegn fjórum hjá Val.

Arnór Smárason, Ingi Þór Sigurðsson, Viktor Jónsson, Oliver Stefánsson og Marko Vardic skoruðu allir fyrir ÍA í vítakeppninni.

Árni Marinó Einarsson í marki ÍA varði fyrstu spyrnu Vals frá Adam Ægi Pálssyni. Mörk frá Sigurði Agli Lárussyni, Aroni Jóhannssyni, Lúkasi Loga Heimissyni og Gylfa Þór Sigurðssyni dugðu því skammt í kjölfarið.

Gylfi lék sinn fyrsta leik í meistaraflokki hér á landi er hann kom inn á sem varamaður á 70. mínútu, en Gylfi er markahæsti leikmaðurinn í sögu íslenska landsliðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert