Eina leiðin er að láta þá spila

Åge Hareide fylgist með framvindu mála á Szouza Ferenc-leikvanginum í …
Åge Hareide fylgist með framvindu mála á Szouza Ferenc-leikvanginum í Búdapest í gærkvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Åge Hareide, þjálfari karlalandsliðsins í fótbolta, segir að leikurinn gegn Ísrael í gærkvöld þar sem Ísland vann, 4:1, í undanúrslitum umspilsins fyrir EM hafi verið besti leikur liðsins undir sinni stjórn og ungir leikmenn liðsins séu að þroskast og farnir að láta mikið að sér kveða.

Íslenska liðið dvelur áfram í Búdapest og æfir þar tvisvar áður en það fer til Wroclaw í Póllandi síðdegis á sunnudaginn en þar mætir það Úkraínu í úrslitaleiknum um sæti á EM 2024 í Þýskalandi á þriðjudagskvöldið.

„Frá því ég tók við liðinu í júní á síðasta ári hef ég verið að kynnast leikmönnunum, prófa ýmsa hluti og átta mig á því hvaða leikmenn passa saman. Við enduðum á að láta liðið spila 4-4-2 því íslenska landsliðið er að vissu leyti alið upp í þeirri leikaðferð. Þeir hafa brugðist vel við því," sagði Hareide þegar mbl.is settist niður með honum á liðshótelinu í Búdapest síðdegis í dag og fór yfir sigurinn glæsilega í gær og stöðu mála hjá landsliðinu.

Stundum erfitt að vera með bestu mennina saman

Andri Lucas Guðjohnsen og Ísak Bergmann Jóhannesson eru tveir af …
Andri Lucas Guðjohnsen og Ísak Bergmann Jóhannesson eru tveir af ungu og efnilegu leikmönnunum í liði Íslands. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég hef líka reynt að reyna að vera með bestu leikmennina saman á vellinum en það er stundum erfitt því þeir gegna mismunandi hlutverkum í sínum félagsliðum. Þegar við tókum við þeim núna lögðum við áherslu á að halda þeirri varnarvinnu sem gekk vel gegn Portúgal í nóvember, og svo tókum við eina æfingu sem var helguð því hvernig við ættum að brjóta niður ísraelska liðið, hvernig við myndum vinna boltann og snúa vörn í sókn.

Við þurftum líka að ákveða hvernig við ætluðum að spila út úr vörninni. Við vissum að ef við myndum byrja leikinn á að senda langa bolta fram þá væri þeim illa við að lenda í návígjum í loftinu. Þeir vilja frekar vinna boltann á jörðinni. Við erum með líkamlega sterka leikmenn frammi eins og Orra og Andra, og svo erum við með Albert sem er klókur að finna svæðin á milli varnar og miðju. Ég tel að þetta hafi tekist ágætlega hjá okkur á köflum í leiknum," sagði Hareide.

Albert getur ráðið úrslitum

Íslenska liðið lenti undir eftir hálftíma leik þegar það fékk á sig vítaspyrnu en var fljótt að svara því með tveimur mörkum.

„Við fengum á okkur ódýrar vítaspyrnur, óþarfa snerting hjá Daníel Leó og hendi á okkar mann, en að öðru leyti var varnarleikurinn góður. Það var góður bragur á liðinu, menn voru yfirvegaðir og traustir og við gáfum ekki mörg færi á okkur. Hákon Rafn var öruggur með öll skot sem komu á markið.

Sóknarleikurinn varð betri og betri eftir því sem leið á leikinn, ekki síst vegna einstaklingsgæða Alberts Guðmundssonar. Ég er búinn að horfa mikið á hann spila og þótt leitt að geta ekki notað hann í landsliðið því hann er leikmaður sem getur ráðið úrslitum. Hann hefur mikla hæfileika og er orðinn mjög mikils metinn á Ítalíu," sagði Hareide en Albert skoraði þrennu í þessum magnaða sigri Íslands, í sínum fyrsta landsleik síðan í júní á síðasta ári.

Frábær vinna íslenskra þjálfara

Albert Guðmundsson fagnar einu þriggja marka sinna gegn Ísrael.
Albert Guðmundsson fagnar einu þriggja marka sinna gegn Ísrael. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég er því mjög ánægður með leikinn, og með hópinn allan. Við erum með marga unga leikmenn, margir þeirra hafa spilað saman með U17 og U19 ára landsliðunum og upp í 21-árs liðið, og þetta er einn af styrkleikum Íslands - leikmennir þekkjast vel og eru nánir.

Þetta eru hæfileikaríkir strákar og ég held að þeir séu öðruvísi en leikmennirnir sem Ísland hefur áður verið með. Í landsliðinu sem gerði það gott fyrir nokkrum árum voru tveir eða þrír í mjög góðum liðum en hinir ekki eins.

Núna eru margir strákar komnir í sterk lið, og það er ljóst að þjálfarar á Íslandi hafa unnið frábæra vinnu við að ala þá upp. Félög eins og Akranes og liðin á höfuðborgarsvæðinu hafa skilað frá sér fjölmörgum góðum leikmönnum og þetta er mikilvægt fyrir framtíð íslenska fótboltans," sagði Norðmaðurinn.

Fáum vonandi fleiri varnarmenn

Sérðu mun á þessum strákum frá því þú tókst við liðinu og þar til núna?

„Já, heilmikinn. Þetta snýst allt um sjálfstraust. Margir þeirra eru farnir að spila mun meira með sínum félagsliðum en áður og það er afar mikilvægt. Kristian Hlynsson spilar með Ajax, ég hef séð marga leiki með honum. Ajax er að ganga í gegnum erfitt tímabil en hann er fastamaður í liðinu.

Ísak fór til Düsseldorf, Hákon er hjá Lille, og það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þessir strákar þroskast. Eina leiðin til að komast að því er að láta þá spila. Ef þeir spila ekki, þá veistu ekki hvað þeir geta. Ég hef mikla trú á þessum leikmönnum en ég vona bara að við fáum fleiri varnarmenn.

Gamli skólinn á Íslandi var byggður á virkilega góðum varnarmönnum, ég kynntist því sjálfur þegar ég þjálfaði Malmö, og veit að þeir voru mjög góðir og vel skipulagðir varnarmenn sem blómstruðu hjá Lars Lagerbäck.

Við erum með Sverri Inga en svo þurfum við að ná inn fleiri sterkum varnarmönnum á næstu árum. Það þarf að vera eitt okkar helsta verkefni."

Geta breytt leikjum

Þú ert hins vegar vel settur með miðju- og sóknarmenn og hafðir úr mörgum að velja í þær stöður fyrir leikinn gegn Ísrael. Það hlýtur að vera þægilegur hausverkur?

Magnaðar lokatölur í Búdapest í gærkvöld.
Magnaðar lokatölur í Búdapest í gærkvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Já, það er hárrétt, þetta eru allt góðir leikmenn sem geta komið inn á og breytt leikjum og slíkt er gríðarlega þýðingarmikið fyrir landslið. Maður þarf ekki að vera hræddur við meiðsli því ég veit að ég er með góða menn á bekknum sem geta fyllt í skörðin."

Þú nefndir Kristian Hlynsson hjá Ajax. Hvernig stendur hann í baráttunni um sæti í liðinu?

„Hann er virkilega góður leikmaður, hæfileikaríkur og klókur. Hann er að berjast við leikmenn eins og Arnór Ingva, Ísak, Jóhann Berg og Hákon. Við þurfum alltaf að leita eftir bestu samsetningunni en við getum gert það í tveimur mjög áhugaverðum leikjum í júní (gegn Englandi og Hollandi) og svo spilum við vonandi nokkra leiki í viðbót í júní og júlí! En við komumst að því á þriðjudaginn."

Þarft að snúa heppninni á þitt band

Var þessi leikur við Ísrael besti leikur íslenska liðsins undir þinni stjórn?

„Já, algjörlega. Við áttum góðan heimaleik gegn Portúgal sem við töpuðum 1:0 með marki á síðustu mínútu. Við áttum góða hálfleiki í undankeppninni, spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik gegn Slóvakíu á heimavelli, og gegn Lúxemborg á heimavelli, og við áttum að gera út um þessa leiki.

En í gærkvöldi nýttum við færin okkar vel. Ef við hefðum gert það í leikjunum við Slóvakíu og Lúxemborg þá hefðum við líka unnið þá. Í fótbolta þarftu alltaf smá heppni í lið með þér, þú þarft að snúa heppninni á þitt band. Við gerðum það gegn Ísrael í gær. Og það besta sem ég sá í leiknum í gær var að við lentum marki undir en höfðum áfram fulla trú á verkefninu.

Við skoruðum og við komumst yfir, og það breytti öllu. Stundum brotna lið auðveldlega niður þegar þau lenda marki undir. En við héldum áfram okkar striki, héldum góðum liðsanda og það skilaði okkur sigrinum.

Þetta eru góðir strákar allt saman, virkilega góðir strákar, og þetta er góður hópur að þjálfa. Þeir leggja hart að sér á æfingum, þeir spyrja og vilja gera hlutina rétt, og ég get ekki sagt neitt annað en gott um þá," sagði Åge Hareide.

Nánar er rætt við hann um leikinn framundan við Úkraínu í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert