Hélt góða ræðu í búningsklefanum

Åge Hareide og Jóhann Berg Guðmundsson á fréttamannafundinum á miðvikudag. …
Åge Hareide og Jóhann Berg Guðmundsson á fréttamannafundinum á miðvikudag. Þá var Jóhann vongóður um að geta spilað. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Åge Hareide, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst hafa verið með leikmann tilbúinn til að leysa fyrirliðann Jóhann Berg Guðmundsson af hólmi í leiknum gegn Ísrael í gærkvöld, með þokkalegum fyrirvara.

Jóhann haltraði af æfingu liðsins á mánudagskvöld, æfði ekki á þriðjudag en var með á hluta æfingarinnar á miðvikudag. Síðan var hann ekki í 23 manna hópi Íslands sem tilkynntur var að morgni leikdags.

„Við höfðum varann á okkur. Hann reyndi að vera með, reyndi að æfa, og við drógum það því að taka ákvörðunina um hvort hann myndi spila. En við urðum að lokum að ákveða það seint á miðvikudeginum, daginn fyrir leik.

Við þurftum að senda endanlega hópinn til UEFA, við þurftum líka að segja leikmanninum sem kæmi í staðinn að hann myndi spila, og tókum því ákvörðunina eftir kvöldmat á miðvikudag," sagði Hareide við mbl.is í kvöld um aðdraganda þess að Jóhann missti af leiknum gegn Ísrael í gærkvöld.

Góður maður sem vill liðinu hið besta

„Jóhann var með okkur allan tímann og hann flutti virkilega góða ræðu yfir strákunum í búningsklefanum fyrir leikinn. Hann hefur gert þetta allt, hann hefur verið á EM, hann hefur verið á HM, hann er með gríðarlega reynslu. Hann er góður maður sem vill liðinu allt hið besta og gerði þetta virkilega vel.

En ég var tilbúinn með mann til að leysa hann af hólmi, vissi fyrirfram hver kæmi í staðinn svo þetta var ekkert vandamál," sagði Åge Hareide.

Nánar er rætt við Hareide í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert