Sálfræðihernaður hjá Ísraelsmönnum

Åge Hareide á fréttamannafundinum þar sem hann svaraði ágengum ísraelskum …
Åge Hareide á fréttamannafundinum þar sem hann svaraði ágengum ísraelskum fréttamönnum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Åge Hareide, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, hefur aldrei áður á löngum ferli þurft að glíma við mál eins og þau sem hann hefur tekist á við sem landsliðsþjálfari Íslands.

Það eru annars vegar mál Alberts Guðmundssonar, sem gat ekki spilað með landsliðinu í síðustu sex leikjunum í undankeppni EM vegna kæru fyrir kynferðisbrot, og hins vegar orðahnippingar í kringum stríðsátök Ísraelsmanna og Palestínumanna á Gaza.

Hareide hefur verið gagnrýndur fyrir ummæli um mál Alberts, og ísraelskir fjölmiðlar sökuðu hann um að hafa tekið afstöðu gegn þeim þegar hann gagnrýndi mannfall óbreyttra borgara á Gaza. Þeir baunuðu m.a. á hann spurningum þess efnis á fréttamannafundinum fyrir leik Ísraels og Íslands í Búdapest.

Aldrei lent í svona málum

„Ég hef aldrei á mínum ferli lent í svona málum sem þjálfari. Við Ómar hjá KSÍ ræðum þetta mikið og í raun og veru er engin ástæða fyrir mig að ræða um annað en fótbolta," sagði Hareide þegar mbl.is spurði hann hvort áþekk mál hefðu áður verið á hans borði.

„En ég gerði það því ég fann til með litlum börnum og foreldrum sem hafa orðið fyrir sprengjum. Ég hvatti líka til þess að gíslarnir yrðu frelsaðir og sprengingunum hætt, og þetta sagði ég bara vegna þess að ég vonast eftir friði.

Ég tók ekki afstöðu, báðir aðilar hafa gert hluti sem á ekki að gera. Í biblíunni er talað um auga fyrir auga og tönn fyrir tönn en það er of mikið þegar þúsundir eru drepnar. Ég hef verið á þessu svæði og þekki söguna, ég hef áður fylgst með átökum milli Palestínumanna og Ísraela, og þeim hefur aldrei lyktað með friði. Þarna ríkir bara hatur.

Fólk á að einbeita sér að friði og íþróttir eiga að geta hjálpað til þess. Margar þjóðir eru með slæma pólitík og slæma stjórnmálamenn.“

Samviskan segir að ég verði að tjá mig

„Þess vegna segir samviskan mín að ég verði að tjá mig. Ég hef ekkert á móti ísraelskum knattspyrnumönnum, en ég verð að segja að ég er ekki sáttur við stjórnmálin í Ísrael. Þetta er mín skoðun og í Noregi má ég láta hana í ljós. Það fangelsar mig enginn fyrir það. Svona má ekki koma fram við fólk.

Ég var ekki hissa á því þegar ísraelsku fréttamennirnir fóru að spyrja mig á þessum nótum á fréttamannafundinum hérna í Búdapest. Ég vissi að þeir myndu gera það og þetta var ákveðin leikjafræði hjá þeim. Þeir gerðu þetta til að reyna að trufla mig og íslenska landsliðið, beina athyglinni hjá mér frá leiknum. En ég lét þá ekki trufla mig eða liðið, ég ræddi þetta aldrei við leikmennina. Talaði bara um fótbolta og ekkert annað. Svona sálfræðihernaður er hluti af fótboltanum," sagði Hareide.

Dóttir mín hýsir flóttafólk

Ísland er á leið í úrslitaleik gegn Úkraínu, sem getur ekki spilað á heimavelli vegna innrásar Rússa í landið sem hófst fyrir rúmlega tveimur árum, og þess vegna fer leikurinn fram í Póllandi.

„Ég finn líka með Úkraínumönnum sem hafa þjáðst mikið. Dóttir mín hefur hýst flóttafólk frá Úkraínu í sínu húsi og ég kenni í brjósti um þau fyrir að hafa þurft að flýja eigið land vegna árása annarar þjóðar. Það er hræðilegt að slíkt gerist í nútíma þjóðfélagi," sagði Hareide.

Nánar er rætt við Hareide um leikinn gegn Úkraínu í Morgunblaðinu í fyrramálið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert