Söguleg þrenna Alberts

Albert Guðmundsson gengur af velli með boltann í handarkrikanum - …
Albert Guðmundsson gengur af velli með boltann í handarkrikanum - hann er fyrstur til að skora tvisvar þrennu fyrir A-landslið Íslands. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Albert Guðmundsson varð í gærkvöld fyrstur til að skora tvær þrennur fyrir A-landslið karla í knattspyrnu í 78 ára sögu landsliðsins.

Hann er jafnframt aðeins þriðji Íslendingurinn til að skora þrennu fyrir landsliðið í mótsleik. Á undan honum voru Jóhann Berg Guðmundsson gegn Sviss árið 2013 og Aron Einar Gunnarsson gegn Liechtenstein árið 2023.

Svo merkilega vill til að allar þrjár þrennur Íslendings í mótsleik hafa verið skoraðar á útivöllum.

Albert skoraði áður þrennu í vináttulandsleik gegn Indónesíu, á útivelli, árið 2018 en Ísland vann þann leik 4:1.

Albert hefur nú skoraði níu mörk fyrir A-landslið Íslands og er átjándi leikmaðurinn frá upphafi sem hefur náð þeim leikjafjölda. Hann deilir nú 16.-18. sæti markalista landsliðsins með Skagafeðgunum Þórði Þórðarsyni og Teiti Þórðarsyni.

Íslensku þrennurnar (fernur meðtaldar) í landsleikjum karla eru orðnar 12 talsins og þær eru eftirtaldar:

*Rík­h­arður Jóns­son skoraði öll fjögur mörk Íslands í 4:3-sigri á Sví­um á Mela­vell­in­um 1951.

*Arn­ór Guðjohnsen skoraði fjögur mörk í 5:1-sigri á Tyrkj­um á Laug­ar­dals­vell­in­um 1991.

*Teit­ur Þórðar­son skoraði þrjú mörk í 6:0-sigri á Fær­ey­ing­um á Laug­ar­dals­vell­in­um 1975.

*Ragn­ar Mar­geirs­son skoraði þrjú mörk í 9:0-sigri á Fær­ey­ing­um í Kefla­vík 1985.

*Þor­vald­ur Örlygs­son skoraði þrjú mörk í 4:0-sigri á Eist­um á Ak­ur­eyr­ar­velli 1994.

*Bjarki Gunn­laugs­son skoraði þrjú mörk í 3:0-sigri á Eist­um í Tall­inn 1996.

*Helgi Sig­urðsson skoraði þrjú mörk í 5:0-sigri á Möltu á Laug­ar­dals­vell­in­um 2000.

*Tryggvi Guðmunds­son skoraði þrjú mörk í 3:0-sigri á Ind­verj­um í Cochin 2001.

*Jóhann Berg Guðmundsson skoraði þrjú mörk í jafntefli, 4:4, gegn Sviss í Bern 2013.

*Albert Guðmundsson skoraði þrjú mörk í 4:1-sigri á Indónesíu í Djakarta 2018.

*Aron Einar Gunnarsson skoraði þrjú mörk í 7:0-sigri á Liechtenstein í Vaduz 2023.

*Albert Guðmundsson skoraði þrjú mörk í 4:1-sigri á Ísrael í Búdapest 2024.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert