„Þetta var ekki tækling. Ef leikmaðurinn hefði gert þetta á götu úti hefði hann verið dæmdur í þriggja mánaða fangelsi," segir Åge Hareide, þjálfari karlalandsliðsins í knattspyrnu, um brot Roy Revivo á Arnóri Sigurðssyni í leik Íslands og Ísraels í Búdapest í gærkvöld.
Revivo braut illa á Arnóri sem var að geysast af stað í skyndisókn á 73. mínútu.
„Hann klippti Arnór gjörsamlega niður án þess að eiga nokkra möguleika á að ná boltanum. Ef hann hefði farið í boltann hefði hann verið með fótinn fyrir framan hann en tæklingin kom beint á milli fóta Arnórs. Ég var hræddur um að hann væri fótbrotinn," sagði Hareide þegar mbl.is ræddi við hann á hóteli landsliðsins í kvöld.
„Sem betur fer vorum við með virkilega góðan dómara í gær, Anthony Taylor. Hann er besti dómarinn sem við höfum fengið í þessari keppni. Ég veit hve góður hann er, ég hef oft séð til hans í ensku úrvalsdeildinni. Hann hafði algjör tök á leiknum.
Ég var dálítið smeykur um að við myndum verða fyrir meiðslum í leiknum því Ísraelsmennirnir eiga það til að vera óheflaðir í tæklingum og sínum leikstíl. Arnór var heppinn en hann á mjög litla möguleika á að spila gegn Úkraínu. Við verðum að bíða og sjá en það er ólíklegt," sagði Hareide, aðspurður um möguleikana á að Arnór yrði með gegn Úkraínu á þriðjudagskvöldið.
Arnór Ingvi Traustason fór af velli meiddur á 62. mínútu en Hareide sagði að staðan væri betri hjá honum.
Arnór Ingvi er reyndur leikmaður og það má vera að þetta hafi aðeins verið þreyta og hann verði í lagi þegar hann hefur hvílst nægilega vel. Hann vissi vel hvað hann þurfti að gera til þess að forðast tognun og gerði það vel. Það eru meiri líkur á að hann geti spilað," sagði Hareide.
Stefán Teitur Þórðarson er kominn til móts við liðið til að fylla í skarð en auk Arnórs Sig. og Arnórs Ingva gat Jóhann Berg Guðmundsson ekki tekið þátt í leiknum við Ísrael í gærkvöld vegna meiðsla.
„Stefán var á tánum og tilbúinn. Hann var eiginlega varamaður sem beið heima eftir kallinu, hann vissi að hann þyrfti að vera klár ef einhver myndi meiðast," sagði Hareide. Spurður hvort fleiri yrðu kallaðir inn í hópinn sagði hann svo ekki vera.
En það er spurning hvort fyrirliðinn Jóhann Berg verði orðinn heill heilsu fyrir leikinn á þriðjudag.
„Við vitum það ekki, við verðum að sjá hvernig hann er á æfingu á mánudaginn. Ef hann getur verið með af fullum krafti þar getur hann spilað.
Vandamálið er að ef bæði Arnór Ingvi og Jóhann finna fyrir einhverju er mjög erfitt að láta þá báða vera í byrjunarliðinu. Við getum átt langt kvöld framundan á þriðjudagskvöldið, með framlengingu og vítaspyrnukeppni og öllu. Við þurfum því að vera búnir undir allt. Ef þetta fer í framlengingu getum við bætt við einum varamanni. Við þurfum að plana allt," sagði Åge Hareide.
Nánar er rætt við hann um Úkraínuleikinn í Morgunblaðinu í fyrramálið.