Kannski áttum við að vera leiðinlegir

Hákon Arnar Haraldsson í leiknum í kvöld.
Hákon Arnar Haraldsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Já, þetta eru gríðarleg vonbrigði," sagði Hákon Arnar Haraldsson, miðjumaður íslenska landsliðsins í fótbolta eftir ósigurinn í úrslitaleiknum gegn Úkraínu, 2:1, í Wroclaw í kvöld.

„Ég er mjög vonsvikinn. Við áttum möguleika í 90 mínútur og þetta er ógeðslega svekkjandi. Það gaf okkur mikinn kraft og sjálfstraust að komast yfir í leiknum. Þetta var geggjað mark hjá Alberti. Ég fann hann þarna inn á milli Úkraínumannanna, svo sólaði hann tvo og negldi boltanum í fjær. Þetta var ógeðslega flott hjá honum," sagði Hákon við mbl.is eftir leikinn.

Albert gefur okkur helling

„Albert gefur okkur helling í sóknarleiknum, og getur búið til mörk upp á eigin spýtur. Við erum vonandi að smella saman fyrir næstu ár, það væri gaman að geta búið til góðar tengingar þarna í sóknarleiknum," sagði Hákon.

En hvað vantaði upp á í leik ykkar?

„Það er erfitt að segja, kannski áttum við að vera betri í því að drepa leikinn eftir að við náðum forystunni. Vera leiðinlegir, stoppa og halda í boltann. En það er auðvelt að segja það eftir á.

Maður hafði alltaf þá tilfinningu að við ættum að geta unnið þá. Kannski duttum við of aftarlega í byrjun seinni hálfleiks, það er stundum erfitt að komast aftur upp úr holunni.“

Verðum að byggja ofan á þennan leik

Finnst þér liðið hafa tekið skref fram á við í þessum tveimur leikjum?

„Já, mér finnst það. Við skoruðum fjögur mörk á móti Ísrael og áttum góðan leik og mér fannst við vera inni í þessum leik við Úkraínu í 90 mínútur. Það eru margir góðir kaflar í þessum tveimur leikjum. Við verðum að læra af þessum leik, byggja ofan á hann, og það er hellingur af hæfileikaríkum strákum á leiðinni. Vonandi er framtíðin björt," sagði Hákon Arnar Haraldsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka