Glæsimark Amöndu tryggði Valssigur

Valur er deildabikarmeistari kvenna í fótbolta 2024.
Valur er deildabikarmeistari kvenna í fótbolta 2024. mbl.is/Árni Sæberg

Valur er deildabikarmeistari kvenna í fótbolta eftir sigur á Breiðabliki, 2:1, á heimavelli sínum á Hlíðarenda í dag.

Breiðablik byrjaði af krafti og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði fyrsta markið á 8. mínútu er hún slapp ein inn fyrir vörn Vals, eftir sendingu frá Hrafnhildi Ásu Halldórsdóttur, og skoraði af öryggi.

Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir jafnaði á 24. mínútu þegar hún potaði boltanum yfir marklínuna af stuttu færi eftir að Ísabella Sara Tryggvadóttir skallaði fyrir markið og beint fyrir fætur hennar.

Agla María Albertsdóttir úr Breiðabliki með boltann í dag. Ísabella …
Agla María Albertsdóttir úr Breiðabliki með boltann í dag. Ísabella Sara Tryggvadóttir verst henni. mbl.is/Árni Sæberg

Aðeins tveimur mínútum síðar kom Amanda Andradóttir Valsliðinu yfir með glæsilegu skoti rétt utan teigs upp í samskeytin. Katie Cousins, sem kom til Vals frá Þrótti fyrir leiktíðina, lagði boltann á Amöndu, sem sá um rest.

Urðu mörkin ekki fleiri í fyrri hálfleik og Valskonur með 2:1-forskot í leikhléi.

Amanda Andradóttir fékk gott færi til að skora sitt annað mark og þriðja mark Vals á 62. mínútu en hún hitti ekki markið þegar hún slapp ein í gegn.

Vigdís Lilja og Agla María Albertsdóttir fengu báðar fín færi til að jafna á síðasta korterinu, en þær hittu ekki á markið úr fínum færum og Valskonur sigldu eins marks sigri í höfn.

Valur 2:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert