Valur er deildabikarmeistari kvenna í fótbolta eftir sigur á Breiðabliki, 2:1, á heimavelli sínum á Hlíðarenda í dag.
Breiðablik byrjaði af krafti og Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði fyrsta markið á 8. mínútu er hún slapp ein inn fyrir vörn Vals, eftir sendingu frá Hrafnhildi Ásu Halldórsdóttur, og skoraði af öryggi.
Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir jafnaði á 24. mínútu þegar hún potaði boltanum yfir marklínuna af stuttu færi eftir að Ísabella Sara Tryggvadóttir skallaði fyrir markið og beint fyrir fætur hennar.
Aðeins tveimur mínútum síðar kom Amanda Andradóttir Valsliðinu yfir með glæsilegu skoti rétt utan teigs upp í samskeytin. Katie Cousins, sem kom til Vals frá Þrótti fyrir leiktíðina, lagði boltann á Amöndu, sem sá um rest.
Urðu mörkin ekki fleiri í fyrri hálfleik og Valskonur með 2:1-forskot í leikhléi.
Amanda Andradóttir fékk gott færi til að skora sitt annað mark og þriðja mark Vals á 62. mínútu en hún hitti ekki markið þegar hún slapp ein í gegn.
Vigdís Lilja og Agla María Albertsdóttir fengu báðar fín færi til að jafna á síðasta korterinu, en þær hittu ekki á markið úr fínum færum og Valskonur sigldu eins marks sigri í höfn.