Bjóst ekki við kallinu í landsliðið

Kristín Dís á landsliðsæfingu á Kópavogsvelli.
Kristín Dís á landsliðsæfingu á Kópavogsvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristín Dís Árnadóttir, leikmaður Brøndby í Danmörku, var kölluð inn í landsliðshóp kvenna í fótbolta fyrir leikina gegn Póllandi og Þýskalandi í undankeppni EM.

Ísland leikur við Pólland á Kópavogsvelli á föstudaginn kemur og síðan Þýskaland ytra fjórum dögum síðar.

„Þetta eru tveir hörkuleikir, sem við förum í til að vinna. Við ætlum okkur að þora og þetta er mjög spennandi. Bæði lið eru mjög sterk og við erum spenntar að fara í þetta verkefni,“ sagði Kristín við mbl.is.

Kristín Dís ræðir við mbl.is.
Kristín Dís ræðir við mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristín var ekki í upprunalega hópnum, en var kölluð inn þegar Hafrún Rakel Halldórsdóttir, samherji hennar hjá Brøndby, og Sædís Rún Heiðarsdóttir úr Vål­erenga í Noregi drógu sig úr hópnum vegna meiðsla.

Kristín, sem er 24 ára, hefur ekki leikið landsleik áður en verið í hópnum. „Það var mjög skemmtilegt að fá kallið. Ég bjóst ekki við því en ég er mjög spennt að vera með liðinu og sýna mig,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert