Fram hafnar í áttunda sæti Bestu deildar karla í knattspyrnu á komandi keppnistímabili samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is.
Framarar fengu 129 stig í spánni, ellefu stigum meira en Skagamenn sem enduðu í níunda sætinu.
Í fyrra endaði Fram í 10. sæti og slapp naumlega við fall en liðið er nú á leið í sitt þriðja tímabil í röð í efstu deild eftir að hafa leikið í 1. deildinni á árunum 2015 til 2021. Fram hefur 18 sinnum orðið Íslandsmeistari, síðast árið 1990, og átta sinnum bikarmeistari, síðast árið 2013, en sá titill er sá eini sem félagið hefur unnið í 34 ár.
Framarar hafa bætt varnarmönnum í hópinn en Kyle McLagan snýr aftur til félagsins eftir tvö ár í Víkingi, Alex Freyr Elísson er kominn aftur eftir árs fjarveru og hinn þrautreyndi og fjölhæfi Kennie Chopart, sem var fyrirliði KR í fyrra, er einnig kominn í Úlfarsárdalinn. Af fastamönnum frá í fyrra eru miðjumaðurinn Aron Jóhannsson og danski miðvörðurinn Delphin Tshiembe horfnir á braut.
Rúnar Kristinsson tók við liði Fram eftir síðasta tímabil en hann hafði þjálfað KR frá árinu 2018.
Komnir:
Alex Freyr Elísson frá Breiðabliki (lék síðast með KA)
Þorri Stefán Þorbjörnsson frá Lyngby (Danmörku) (lán)
Kennie Chopart frá KR
Kyle McLagan frá Víkingi R.
Stefán Þór Hannesson frá Ægi (úr láni)
Farnir:
Aron Jóhannsson í Aftureldingu
Ion Perelló í Reus FC Reddis (Spáni)
Delphin Tshiembe í danskt félag
Þórir Guðjónsson, óvíst
Fyrstu leikir Fram:
7.4. Fram - Vestri
15.4. Fram - Víkingur R.
20.4. KR - Fram
29.4. Valur - Fram
5.5. Fram - Fylkir
Lokastaðan:
1 ??
2 ??
3 ??
4 ??
5 ??
6 ??
7 ??
8 Fram 129
9 ÍA 118
10 Fylkir 63
11 Vestri 60
12 HK 56