Spá mbl.is: Sjötta sætið

FH-ingar tóku gott stökk á milli áranna 2022 og 2023 …
FH-ingar tóku gott stökk á milli áranna 2022 og 2023 þegar þeir enduðu í fimmta sæti á síðasta tímabili. mbl.is/Óttar Geirsson

FH úr Hafnarfirði hafnar í sjötta sæti Bestu deildar karla í knattspyrnu á komandi keppnistímabili samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is.

FH fékk 181 stig í spánni og var 39 stigum á undan KA sem hafnaði í sjöunda sætinu.

FH endaði í fimmta sæti deildarinnar í fyrra og rétti þá verulega hlut sinn frá árinu 2022 þegar liðið hafnaði í tíunda sæti en það var versta tímabil félagsins í deildinni í 27 ár. FH varð átta sinnum Íslandsmeistari á árunum 2004 til 2016 en hefur frá þeim tíma best náð öðru sætinu, árið 2020. Þá hefur FH tvisvar orðið bikarmeistari, árin 2007 og 2010.

FH hafa bætt við sig þremur sterkum varnarmönnum en Böðvar Böðvarsson sneri heim frá Svíþjóð, Ísak Óli Ólafsson kom frá Danmörku og Dusan Brkovic frá KA. Þá er grindvíski framherjinn Sigurður Bjartur Hallsson kominn frá KR. Öflugir leikmenn eru hins vegar horfnir á braut úr Hafnarfirði en Eggert Gunnþór Jónsson fór á heimaslóðirnar í Fjarðabyggð, Davíð Snær Jóhannsson fór til Aalesund í Noregi og þeir Kjartan Henry Finnbogason, Steven Lennon og finnski varnarmaðurinn Dani Hatakka lögðu allir skóna á hilluna.

Heimir Guðjónsson tók á ný við FH fyrir tímabilið 2023 en hann þjálfaði liðið á gullaldartímanum frá 2008 til 2017.

Komnir:
Ísak Óli Ólafsson frá Esbjerg (Danmörku)
Sigurður Bjartur Hallsson frá KR
Böðvar Böðvarsson frá Trelleborg (Svíþjóð)
Dusan Brkovic frá KA
Arnór Borg Guðjohnsen frá Víkingi R. (var í láni frá Víkingi)
Arngrímur Bjartur Guðmundsson frá Ægi (úr láni)
Dagur Þór Hafþórsson frá ÍR (úr láni)

Farnir:
Eggert Gunnþór Jónsson í KFA
Davíð Snær Jóhannsson í Aalesund (Noregi)
Eetu Mömmu í Lecce (Ítalíu) (úr láni)
Steven Lennon, hættur
Kjartan Henry Finnbogason, hættur
Dani Hatakka, hættur

Fyrstu leikir FH:
  8.4. Breiðablik - FH
13.4. KA - FH
20.4. FH - HK
28.4. ÍA - FH
  4.5. FH - Vestri

Lokastaðan:
1 ??
2 ??
3 ??
4 ??
5 ??
6 FH 181
7 KA 142
8 Fram 129
9 ÍA 118
10 Fylkir 63
11 Vestri 60
12 HK 56

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert