Spennt að byrja þessa vegferð og komast á EM

Fanney Inga á landlsiðsæfingu á Kópavogsvelli.
Fanney Inga á landlsiðsæfingu á Kópavogsvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er mjög spennt að byrja þessa vegferð og komast á EM,“ sagði landsliðsmarkvörðurinn Fanney Inga Birkisdóttir í samtali við mbl.is

Ísland byrjar undankeppni EM 2025 á leik gegn Póllandi á Kópavogsvelli á föstudag. Eftir það er útileikur við Þýskaland á þriðjudaginn.

„Þetta eru tvö mjög sterk lið og við verðum að vera með fulla einbeitingu til að sækja stig í þessum leikjum,“ sagði Fanney.

Fanney lék gríðarlega vel í útsigrinum á Danmörku, 1:0, í Þjóðadeildinni í lok síðasta árs. Telma Ívarsdóttir varði hins vegar mark Íslands í leikjunum gegn Serbíu í umspili um áframhaldandi veru í A-deild Þjóðadeildarinnar.

Fanney Inga ræðir við mbl.is.
Fanney Inga ræðir við mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég horfi á þetta þannig að við erum í sama liðinu og viljum gera okkar til að liðinu gangi sem best. Ég vil hjálpa henni að vera betri og hún hjálpar mér,“ sagði Fanney um samkeppnina um markvarðarstöðuna.

Fanney er enn þá aðeins 19 ára gömul, en hefur þrátt fyrir það tekið heilt tímabil sem aðalmarkvörður Vals og er komin í A-landsliðið.

„Mér finnst ótrúlega gaman að vera með landsliðinu og mér finnst ég læra mikið á því að vera hér. Það getur tekið á inn á milli, en er fyrst og fremst bara gaman,“ sagði hún.

Fanney átti sinn þátt í að Valur varð Íslandsmeistari á síðustu leiktíð og hún er spennt fyrir Íslandsmótinu, en Valur varð meistari meistaranna með sigri á Breiðabliki um páskahelgina.

„Ég er mjög spennt að þetta sé að fara að byrja. Það var góð upphitun að mæta Breiðabliki og vinna,“ sagði Fanney.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert