Knattspyrnumaðurinn Ísak Snær Þorvaldsson er kominn aftur í raðir Breiðabliks sem hefur fengið hann lánaðan frá Rosenborg í Noregi.
Ísak átti frábært tímabil með Blikum 2022 þegar hann varð Íslandsmeistari með Kópavogsliðinu og skoraði 14 mörk í 24 leikjum í Bestu deildinni.
Hann gekk síðan til liðs við Rosenborg og lék með liðinu allt síðasta tímabil en nú liggur fyrir að hann verður með Breiðabliki út þetta tímabil. Ísak lék ekki með Rosenborg í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar á dögunum vegna meiðsla.
Ísak er 22 ára og lék aðallega sem miðjumaður en var settur í fremstu víglínu hjá Breiðabliki með góðum árangri.
Hann skoraði sigurmark Íslands í vináttulandsleik gegn Gvatemala á Flórída í janúar og hefur spilað sex A-landsleiki fyrir Íslands hönd.