Fanney Inga Birkisdóttir lék vel í marki Íslands í 3:0-heimasigrinum á Póllandi í undankeppni EM kvenna í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld.
Hin 19 ára Fanney fékk traustið frá landsliðsþjálfaranum Þorsteini Halldórssyni, þrátt fyrir að Telma Ívarsdóttir hafi leikið tvo síðustu leiki. Fanney hefur nú leikið tvo landsleiki og haldið hreinu í þeim báðum.
„Auðvitað er það alltaf svekkelsi að vera tekinn úr markinu þegar þú ert búinn að vera að spila leiki að undanförnu. Það er partur af því að vera þjálfari, maður þarf að taka erfiðar ákvarðanir og þetta var ein af þeim.
Auðvitað er leikmaður sem er tekinn úr liðinu sár og svekktur. Það koma önnur tækifæri og þú þarft að nýta þau. Hún þarf að nýta sumarið og sýna hversu góð hún getur verið,“ sagði Þorsteinn í samtali við mbl.is um viðbrögð Telmu við að missa sætið í byrjunarliðinu.