Arnar Freyr skilaði stigi fyrir HK

Arnar Freyr Ólafsson lék afar vel og ver hér frá …
Arnar Freyr Ólafsson lék afar vel og ver hér frá Daníel Hafsteinssyni. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það var ansi vetrarlegt um að litast á KA-vellinum á Akureyri í dag þegar KA og HK gerðu 1:1 jafntefli í 1. umferð Bestu-deildar karla í fótbolta. KA-menn voru mun beittari í leiknum og sóttu á köflum án afláts. HK getur vel við unað með stig úr leiknum. Bæði lið eru þá komin á blað í deildinni.

Það er mikill snjór á Akureyri en völlurinn var grænn og fagur þegar flautað var til leiks. KA-menn virtust kunna betur við sig í krefjandi aðstæðum og þeir tóku strax öll völd í leiknum. Sóknir buldu á HK-vörninni áður en KA skoraði fyrsta markið. Rodrigo Gomes skallaði í mark eftir fyrirgjöf Bjarna Aðalsteinssonar, 1:0.

Drónamynd úr leiknum í dag.
Drónamynd úr leiknum í dag. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

Áfram hélt KA uppi stífum sóknarleik en það var HK sem skoraði næsta mark. Aukaspyrna af hægri kantinum kom KA-mönnum í vandræði og eftir hamagang í teignum, þar sem Kristijan Jajalo í marki KA, komst ekki í boltann, náði Atli Þór Jónasson að stanga hann í netið, 1:1.

Leikmenn KA hita upp í snjókomu.
Leikmenn KA hita upp í snjókomu. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Eftir jöfnunarmark HK á 20. mínútu róaðist leikurinn en KA-menn voru þó ávallt að ógna meira. Hornspyrnur hrönnuðust upp hjá KA en lítið kom út úr þeim. Staðan var 1:1 í hálfleik og eflaust voru leikmenn fegnir að komast inn í hlýjuna um stund.

KA-menn komu mjög beittir inn í seinni hálfleikinn. Þeir tóku strax öll völd og sköpuðu nokkur færi, en inn vildi boltinn ekki. Arnar Freyr Ólafsson var í stuði í marki HK og varði vel hvað eftir annað. HK átti einstaka rispu upp völlinn. KA reyndi og reyndi allan seinni hálfleikinn en allt kom fyrir ekki hjá heimamönnum. Sóknirnar voru ekki nógu markvissar og HK-ingar sluppu með skrekkinn og náðu harðsóttu stigi.

Leikmenn HK hita upp í kuldanum.
Leikmenn HK hita upp í kuldanum. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir
KA 1:1 HK opna loka
90. mín. Karl Ágúst Karlsson (HK) fær gult spjald +6
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert