„Skagamenn eru stórt félag í sögu íslenska boltans og það er alltaf ákveðin stemning í kringum þá,“ sagði Víðir Sigurðsson, fréttastjóri íþrótta hjá Morgunblaðinu, í upphitunarþætti Dagmála fyrir Bestu deild karla í knattspyrnu þegar rætt var um ÍA.
Skagamönnum er spáð 9. sæti deildarinnar í spá íþróttadeildar Árvakurs en liðið hafnaði í efsta sæti 1. deildarinnar á síðustu leiktíð.
„Skagamenn hafa ekki unnið neitt í meira en tuttugu ár og hafa verið að flakka mikið á milli tveggja efstu deildanna í talsverðan tíma,“ sagði Víðir.
„Ég held að raunhæfasta markmið þeirra sé að halda velli og gera liðið að stöðugu liði í efstu deild en þeir þurfa að passa sig því þeir gætu dregist niður í fallbaráttuna ef hlutirnir falla ekki með þeim til að byrja með,“ sagði Víðir meðal annars.