Tímamótamark Gylfa á Hlíðarenda - beið í þrjú ár

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sögulegt mark í kvöld.
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sögulegt mark í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði tímamótamark á sínum ferli í knattspyrnunni, um leið og hann skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild á Íslandi, í leik Vals gegn ÍA í fyrstu umferð Bestu deildarinnar sem nú stendur yfir á Hlíðarenda.

Þetta er 100. mark Gylfa í deildakeppni á ferlinum en hann þurfti að bíða lengi eftir því þar sem 99. markið, og reyndar það 98. líka, skoraði hann 16. apríl árið 2021. Þá skoraði Gylfi bæði mörk Everton í jafnteflisleik gegn Tottenham, 2:2, í ensku úrvalsdeildinni á Goodison Park.

Gylfi skoraði sitt fyrsta deildamark fyrir Shrewsbury í ensku D-deildinni haustið 2008 þegar hann var þar í láni frá Reading. Ári síðar gerði hann þrjú mörk fyrir Crewe í C-deildinni, einnig á meðan lánsdvöl stóð yfir.

Gylfi skoraði síðan 19 mörk fyrir Reading í B-deildinni á árunum 2009 til 2011.

Hann fór til Þýskalands og skoraði þar níu mörk fyrir Hoffenheim í efstu deild á árunum 2010-12.

Gylfi lék síðan samfleytt í ensku úrvalsdeildinni frá 2012 til 2021 og skoraði þar 34 mörk fyrir Swansea, 8 fyrir Tottenham og 25 fyrir Everton.

Þar með voru mörkin orðin 99 þegar Gylfi fór í langt frí frá knattspyrnunni sumarið 2021. Hann náði ekki að skora deildamark fyrir Lyngby haustið 2023 þannig að 100. markið leit dagsins ljós á Hlíðarenda í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert