Jákvætt að hafa staðið þetta af okkur

Viktor Karl Einarsson, Höskuldur Gunnlaugsson og Jason Daði Svanþórsson eftir …
Viktor Karl Einarsson, Höskuldur Gunnlaugsson og Jason Daði Svanþórsson eftir að Viktor lagði upp fyrra mark Blika fyrir Jason. mbl.is/Árni Sæberg

Viktor Karl Einarsson var maðurinn á bak við bæði mörk Breiðabliks í sigrinum á FH, 2:0, í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld.

Blikar voru mun betri í fyrri hálfleiknum og FH-ingar í þeim síðari og Viktor kvaðst skrifa nokkurn veginn upp á það þegar mbl.is ræddi við hann eftir leikinn.

„Já, ég er eiginlega sammála því að mestu leyti, en án þess þó að þeir sköpuðu sér einhver alvöru færi. Það var samt full mikið af því góða hjá þeim, hvað þeir náðu að herja á okkur í seinni hálfleiknum.

En þar sem þeir sköpuðu sér ekki mikið áttum við alltaf tækifæri til að sækja hratt á þá, sem var kannski ekki endilega það sem við lögðum upp með.

En heilt yfir fannst mér við sýna alvöru baráttu, við vorum skæðir í skyndisóknum og skoruðum tvö góð mörk. Ég er því fyrst og fremst ánægður með sigurinn," sagði Viktor.

Hann var ánægður með fyrri hálfleikinn hjá Blikum.

„Mér fannst bara vera eitt lið á vellinum allan fyrri hálfleikinn og það var smá svekkjandi að hafa ekki náð að nýta það betur og skorað fleiri mörk. Þetta var mjög góður fyrri hálfleikur, eitthvað sem við þurfum að taka með okkur og byggja á. Síður seinni hálfleikurinn en við skoruðum þó eitt mark þar sem er jákvætt."

Þið stóðust þó talsverða pressu FH í seinni hálfleik.

„Já, við gerðum það algjörlega og ég er mjög stoltur af liðinu. Við hentum okkur fyrir alla bolta. FH-ingar eru með frábært lið og við vissum að þeir yrðu hættulegir, enda eru þeir með góða skallamenn. Það er því mjög jákvætt að hafa staðið þetta af okkur, og sérstaklega að skora annað mark," sagði miðjumaðurinn.

Viktor Karl kom að báðum mörkum Blika því hann lagði það fyrra upp fyrir Jason og það seinna kom eftir skot hans.

„Í fyrra markinu fékk ég boltann úti hægra megin, og ákvað að láta eina fyrirgjöf vaða þarna fyrir framan vörnina. Ég sá að Viktor Örn var nálægt því að skalla hann í netið en svo var Jason þarna á fjær, tók snyrtilega á móti boltanum og setti hann í markið.

Í seinna markinu fékk Aron nokkra menn í sig og gaf út til mín. Ég lét vaða á markið, boltinn breytti stefnu af varnarmanni og Benjamin var mættur þarna á fjær eins og hann gerir mjög vel og lagði boltann í netið. Hann kann að skora mörk, það er alveg á hreinu," sagði Viktor um nýjasta sóknarmanninn í röðum Blika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert