Leikmaður Vestra á sjúkrahús eftir bílveltu

Serigne Modou Fall, leikmaður Vestra.
Serigne Modou Fall, leikmaður Vestra. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Bifreið með nokkra leikmenn knattspyrnuliðs Vestra innanborðs valt á leið sinni til Ísafjarðar í gærkvöld og flytja þurfti einn leikmannanna á sjúkrahús í Reykjavík.

Samúel Samúelsson, formaður knattspyrnudeildar Vestra, staðfesti þetta við Fótbolta.net þar sem fjallað er ítarlega um óhappið en leikmaðurinn er Serigne Fall sem hefur leikið með Vestra frá árinu 2016.

Samkvæmt Samúel eru meiðsli hans ekki eins slæm og óttast var. Hann væri í mesta lagi rifbeinsbrotinn.

Samúel segir við Fótbolta.net að flugi vestur hafi verið aflýst í gær og því hafi verið farið vestur á þremur bílum. Aðrir sem voru í bílnum sem valt voru útskrifaðir eftir skoðun læknis á Hólmavík. Liðið hefði síðan gist á Hólmavík í nótt og farið þaðan til Ísafjarðar í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert