Bjartsýnn á að æfa á fimmtudag eftir bílveltu

Serigne Modou Fall, leikmaður Vestra.
Serigne Modou Fall, leikmaður Vestra. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra í knattspyrnu, segir Serigne Modou Fall, leikmann karlaliðsins, hafa það gott eftir að hann var fluttur á sjúkrahús í kjölfar bílveltu um liðna helgi.

„Hann er bara ferskur. Hann kom vestur með flugi seinnipartinn í gær og var bjartsýnn á að æfa á fimmtudaginn sagði hann!“ sagði Samúel í samtali við mbl.is í morgun og hló.

Ekki rifbeinsbrotinn

Serigne var ásamt nokkrum liðsfélögum sínum í bíl á leið heim til Ísafjarðar eftir 2:0-tap Vestra fyrir Fram í fyrstu umferð Bestu deildarinnar í Úlfarsárdal á sunnudag þegar óhappið reið yfir.

Óttast var að hann hefði rifbeinsbrotnað en Samúel sagði myndatöku hafa leitt í ljós að svo væri ekki.

„Hann er ekki rifbeinsbrotinn. Hann sagði að honum væri aðeins illt í rifbeininu en ætlaði að mæta á æfingu á fimmtudaginn.“

Áfram gakk

Þrátt fyrir áfallið sem getur fylgt því að lenda í bílslysi sagði Samúel leikmennina ekki vera að dvelja við það.

„Nei, veistu það að allir þessir strákar voru nett sjokkeraðir eftir þetta, eins og er kannski eðlilegt, en ég er búinn að heyra í þeim öllum og þeir voru allir ferskir og brattir.

Það var bara „Áfram gakk,“ eins og þeir sögðu,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert