Getur ekki farið fram á mikið meira

Þorosteinn Halldórsson glaður í bragði fyrir leik.
Þorosteinn Halldórsson glaður í bragði fyrir leik. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Fyrri hálfleikurinn var í fínu lagi,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari kvenna í fótbolta í samtali við RÚV eftir tap gegn Þýskalandi í Aachen í kvöld, 3:1, í undankeppni EM.

Í stöðunni 1:1 um miðjan fyrri hálfleik meiddist Sveindís Jane Jónsdóttir og við það breyttist leikurinn og þýska liðinu óx ásmegin.

„Áhersluatriðin breytast þegar Sveindís fer af velli. Þær voru í basli þegar hún ógnaði með hraðanum. Við fengum þrjú dauðafæri eftir föst leikatriði og þær voru í basli þar.

Það heppnaðist margt sem við vorum að gera í byrjun. Þær ná hins vegar að þrýsta okkur aftar þegar við þurfum að gera breytingu,“ sagði Þorsteinn.

Stuðningsmenn Íslands.
Stuðningsmenn Íslands. Ljósmynd/Alex Nicodim

Íslenska liðið komst svo lítt áleiðis í seinni hálfleik, en mörkin urðu ekki fleiri.

„Seinni hálfleikur var erfiðari. Fanney átti erfitt með að sparka út og við náðum ekki að spila okkur í gegnum fyrstu pressuna hjá þeim. Við vorum ekki að ná að skapa okkur nógu mikið af góðum stöðum.

Við fengum samt okkar hálffæri í seinni hálfleik og það er margt jákvætt sem við getum tekið út úr þessu og við lögðum okkur öll í þetta, en auðvitað er ég fúll að tapa. Stelpurnar skildu alltaf eftir úti á velli og maður getur ekki farið fram á mikið meira.“

Diljá Ýr Zomers í eldlínunni.
Diljá Ýr Zomers í eldlínunni. Ljósmynd/Alex Nicodim

Lea Schüller gerði tvö fyrstu mörk Þýskalands og voru þau ansi svipuð, skalli af stuttu færi eftir sendingu frá vinstri.

„Dekkningin klikkar í fyrsta markinu og þær voru tvær á fjær á móti einni. Svo var þetta góð sending og gott hlaup í öðru markinu. Mér fannst við samt ráða ágætlega við þetta í fyrri hálfleik, þegar þær voru ekki að opna okkur mikið. Í seinni hálfleik þrýstu þær meira á okkur,“ sagði Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert