Knattspyrnukonan Berglind Björg Þorvaldsdóttir er að ganga í raðir Vals frá franska félaginu París SG samkvæmt heimildum Fótbolta.net.
Berglind gekk í raðir Parísarfélagsins árið 2022 en fékk lítið að spreyta sig með liðinu, áður en hún fór í barneignarleyfi. Berglind eignaðist sitt fyrsta barn í lok síðasta árs.
Berglindi er ætlað að fylla í skarðið sem Bryndís Arna Níelsdóttir skilur eftir sig hjá Val, en Bryndís gekk í raðir Växjö eftir síðasta tímabil.
Berglind hefur skorað tólf mörk í 72 landsleikjum. Hún hefur leikið með Breiðabliki, ÍBV og Fylki á Íslandi. Erlendis hefur hún leikið með Hellas Verona, PSV, AC Milan, Le Havre, Hammarby, Brann og loks París SG.
Þá er Berglind áttunda markahæsta konan í sögu efstu deildar hér á landi en hún hefur skorað 137 mörk í 190 leikjum í deildinni. Þar af eru 105 mörk í 141 leik með Breiðabliki.