Sveindís er óbrotin

Sveindís Jane Jónsdóttir meiðist þegar Kathrin-Julia Hendrich brýtur á henni …
Sveindís Jane Jónsdóttir meiðist þegar Kathrin-Julia Hendrich brýtur á henni í Aachen. Ljósmynd/Alex Nicodim

Sveindís Jane Jónsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er óbrotin og fór ekki úr axlarlið í leiknum gegn Þýskalandi í Aachen í gær.

Mbl.is hefur fengið þetta staðfest en brotið var gróflega á Sveindísi eftir hálftíma leik þannig að hún þurfti að fara af velli. Samherji hennar hjá Wolfsburg í Þýskalandi, Kathrin-Julia Hendrich var þar að verki.

Sveindís þarf hins vegar að fara í frekari myndatökur vegna áverkanna en hún lenti illa á annari öxlinni. Ekki er því ljóst hvenær hún getur leikið næst með Wolfsburg sem á fimm leiki eftir í þýsku 1. deildinni, þar sem liðið er sjö stigum á eftir Bayern München í slagnum um meistaratitilinn, en auk þess eiga félögin eftir að mætast í þýska bikarúrslitaleiknum 9. maí.

Ísland mætir Austurríki í gríðarlega þýðingarmiklum leikjum í undankeppni EM 31. maí og 4. júní og þar skiptir miklu máli fyrir íslenska liðið að Sveindís verði orðin heil heilsu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert