Sterkur sigur FH fyrir norðan

Björn Daníel Sverrisson og Sveinn Margeir Hauksson eigast við á …
Björn Daníel Sverrisson og Sveinn Margeir Hauksson eigast við á KA-vellinum. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

 KA og FH áttust við í 2. umferð Bestu deildar karla í dag og var spilað á KA-vellinum á Akureyri við fyrirtaks aðstæður. FH landaði sterkum 3:2-sigri og er nú um miðja deild með sín fyrstu stig. KA er með eitt stig.

Upphafskafli leiksins var ekki merkilegur en FH-ingar voru öllu beittari lengstum. Gestirnir fengu nokkuð ódýra vítaspyrnu sem þeir nýttu sér og komust í 1:0. Björn Daníel Sverrisson var felldur í teignum þegar hann var kominn í algjört öngstræti og Vilhjálmur Alvar virtist aldrei í vafa. Vuk Oskar tók vítaspyrnuna og skoraði hann af fádæma öryggi.

FH bætti fljótlega við marki eftir góða sókn upp hægri kantinn. Sigurður Bjartur Hallsson setti boltann í opið markið eftir að Kristijan Jajalo hafði varið skot frá Kjartani Kára Halldórssyni. KA-menn fengu sín færi. Sveinn Margeir Hauksson skallaði boltann í þverslá áður en Ásgeir Sigurgeirsson skoraði gott mark eftir undirbúning Elfars Árna Aðalsteinssonar. Staðan var 2:1 fyrir FH í hálfleik og leikurinn í raun galopinn.

Seinni hálfleikurinn byrjaði með spjaldaveislu en síðan kom jöfnunarmark frá KA. Sindri Kristinn Ólafsson í marki FH hafði verið að gæla við að gefa KA eitt mark með klaufagangi í fyrri hálfleik en lét nú verða af því. Hann missti boltann beint til Bjarna Aðalsteinssonar. Bjarni þurfti þó að gera sitt og kláraði með stæl 2:2.

FH sótti strax í sig veðrið og ein sókn þeirra skilaði fljótlega marki. Nú var það Kristijan Jajalo í marki KA sem leit ekki vel úr. Kjartan Kári Halldórsson skoraði á nærstöngina hjá honum með skoti af löngu færi. Kristijan var illa staðsettur og seinn að átta sig svo boltinn fór inn.

FH-ingar höfðu góða stjórn á leiknum fram á lokamínúturnar. Þá lögðu KA-menn þunga í sóknir sínar en uppskáru bara eitt dauðafæri sem ekki nýttist. Viðar Örn Kjartansson fór illa með gott færi skömmu fyrir leikslok en lengra komust heimamenn ekki og úrslitin súr fyrir þá.

KA 2:3 FH opna loka
90. mín. Logi Hrafn Róbertsson (FH) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert