Rauða spjaldið er engin afsökun

Birkir Valur Jónsson, hægri bakvörður HK, með boltann en Hinrik …
Birkir Valur Jónsson, hægri bakvörður HK, með boltann en Hinrik Harðarson sóknarmaður ÍA sækir að honum. mbl.is/Óttar Geirsson

Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, sagði að rautt spjald eftir 40 mínútna leik væri engin afsökun fyrir því að fá á sig fjögur mörk gegn Skagamönnum í leik liðanna í Bestu deild karla í fótbolta í Kórnum í dag.

Skagamenn skoruðu mörkin í síðari hálfleik og unnu sannfærandi sigur, 4:0, eftir jafnan fyrri hálfleik en HK missti Þorstein Aron Antonsson af velli með rautt spjald á 41. mínútu.

„Það vantaði kraft og einbeitingu í varnarþáttinn hjá okkur. Við fengum á okkur ódýr mörk eftir fyrirgjafir og sátum eftir þegar þeir sluppu í gegn án þess að vera rangstæðir. Þessi augnablik í leiknum eru bara ekki nógu góð hjá okkur, hvort sem við erum tíu eða ellefu inni á vellinum," sagði Ómar Ingi við mbl.is eftir leikinn.

„Þeir gengu á lagið þegar við vörðumst ekki nógu vel í kringum vítateiginn okkar, eða fyrirgjöfunum þegar þær komu. Við getum bara sjálfum okkur um kennt," sagði Ómar.

Fengum besta færið í fyrri hálfleik

Leikurinn var jafn fram að rauða spjaldinu sem Þorsteinn Aron Antonsson, miðvörður HK, fékk á 41. mínútu leiksins.

Ómar Ingi Guðmundsson þjálfari HK.
Ómar Ingi Guðmundsson þjálfari HK. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Já, fyrri hálfleikur var mjög líkur því sem við bjuggumst við og menn gerðu að mestu leyti það sem lagt var upp með. Við komum okkur í ágætar stöður og fengum sannarlega besta færi fyrri hálfleiksins þegar Atli Þór var einn gegn markverðinum.

Ég er alls ekki ósáttur með leikinn fram að rauða spjaldinu, hann var í því jafnvægi sem við reiknuðum með. En það breytir því ekki að við áttum að gera betur. Það er engin afsökun fyrir því að fá á sig fjögur mörk að hafa misst mann af velli. Mörkin sem við fengum á okkur voru ekki þess eðlis að þau væru bein ástæða þess að við værum manni færri og sé hægt að afsaka þau með því. Við eigum að geta gert mun betur við vítateiginn okkar, sama hvort við erum tíu eða ellefu," sagði Ómar.

Ungu strákarnir hafa unnið fyrir hlutverkunum

Umræðan er mikil um að hópurinn ykkar sé ekki nógu stór eða breiður. Er eitthvað á döfinni til að stækka hann áður en lokað verður fyrir félagaskiptin 26. apríl?

„Nei, það er ekkert slíkt í gangi. Ef eitthvað býðst, þá skoðum við það. En allt tal um að hópurinn sé ekki nógu stór eða breiður finnst mér ekki rétt. Hvort sem er í leiknum fyrir norðan eða í dag þá gerðu þeir vel sem komu inn á sem varamenn, og sýndu að þeir myndu setja pressu á þá sem eru í byrjunarliðinu.

Þetta eru ungir 2. flokksstrákar og heimamenn og þeir hafa unnið fyrir því að vera í þeim hlutverkum sem þeir eru í núna, hafa sýnt það í fyrstu tveimur leikjunum, og ég hef fulla trú á því að þeir geti gert meira," sagði Ómar.

Þrír úr hópi HK-inga eru fjarverandi vegna meiðsla, Atli Arnarson, Brynjar Pálsson og Viktor Helgi Benediktsson, en Ómar sagði að ekki væri langt í þá.

„Atli fékk högg á læri í leiknum við KA og er stífur eftir það. Það var aðeins of knappt fyrir hann að ná þessum leik. Brynjar og Viktor eru vonandi að byrja að æfa meira með liðinu í næstu viku og þeir ættu að vera komnir inn fyrir mánaðamótin, tæplega samt í næsta leik," sagði Ómar Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert