Stjarnan úr Garðabæ hafnar í þriðja sæti Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á komandi keppnistímabili, samkvæmt spá Morgunblaðsins og mbl.is.
Stjarnan fékk 151 stig þegar atkvæði spámannanna voru lögð saman en þar voru gefin stig frá einu (fyrir 10. sætið) upp í tíu (fyrir fyrsta sætið). Stjörnukonur eru ellefu stigum fyrir ofan Þrótt sem hafnaði í fjórða sætinu í spánni.
Stjarnan hafnaði í fjórða sæti deildarinnar 2023, eftir að hafa verið komin í annað sætið þegar þremur umferðum var ólokið. Besti árangur liðsins síðustu sjö ár er annað sætið árið 2022 en blómaskeiðið í sögu Stjörnunnar er árin 2011 til 2016 þegar Garðabæjarliðið varð fjórum sinnum Íslandsmeistari og þrisvar bikarmeistari. Annars hefur Stjarnan leikið óslitið í efstu deild frá árinu 1992 og aldrei endað neðar en í sjötta sæti.
Lið Stjörnunnar sá á brott fjórum lykilmönnum fyrir þetta tímabil því Jasmín Erla Ingadóttir og Málfríður Erna Sigurðardóttir fóru í Val, Heiða Ragney Viðarsdóttir í Breiðablik og Sædís Rún Heiðarsdóttir fór í atvinnumennsku til Noregs. Tvær bandarískar konur eiga að fylla í stærstu skörðin en þær Hannah Sharts og Caitlin Cosme eiga báðar að vera öflugir varnarmenn.
Kristján Guðmundsson hefur þjálfað Stjörnuna frá árinu 2019 og er að hefja sitt sjötta tímabil með liðið.
Komnar:
13.4. Hannah Sharts frá KuPS (Finnlandi)
10.4. Caitlin Cosme frá Orlando Pride (Bandaríkjunum)
8.2. Henríetta Ágústsdóttir frá HK
3.2. Esther Rós Arnarsdóttir frá FH
1.2. Heiðdís Emma Sigurðardóttir frá Grindavík (úr láni)
1.2. Jóhanna Melkorka Þórsdóttir frá Fram (úr láni)
1.2. Ólína Ágústa Valdimarsdóttir frá Fram (úr láni)
Farnar:
16.2. Málfríður Erna Sigurðardóttir í Val
1.2. Heiða Ragney Viðarsdóttir í Breiðablik
1.2. Jasmín Erla Ingadóttir í Val
1.2. Eyrún Vala Harðardóttir í Fram (var í láni hjá HK)
31.1. Sædís Rún Heiðarsdóttir í Vålerenga (Noregi)
Fyrstu leikir Stjörnunnar
22.4. Stjarnan - Víkingur R.
27.4. Keflavík - Stjarnan
3.5. Stjarnan - Tindastóll
8.5. Breiðablik - Stjarnan
14.5. Stjarnan - FH
Lokastaðan:
1 ??
2 ??
3 Stjarnan 151
4 Þróttur R. 140
5 Þór/KA 126
6 Víkingur R. 103
7 FH 103
8 Fylkir 47
9 Tindastóll 46
10 Keflavík 42