Rúnar: Þá öskraði ég KR

Framarar fagna sigurmarkinu í dag.
Framarar fagna sigurmarkinu í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta er ofboðslega góð tilfinning,“ sagði Rúnar Kristinsson þjálfari Fram í samtali við mbl.is eftir 1:0-sigur liðsins á KR í Bestu deildinni í fótbolta í dag.

Rúnar er mikill KR-ingur og var KR eina félagið á Íslandi sem Rúnar hafði verið hjá, þar til hann samdi við Fram fyrir tímabilið eftir að samningur hans við KR var ekki framlengdur.

„Ég er í vinnu hjá Fram við að reyna að vinna fótboltaleiki og gera betur en liðið hefur verið að gera undanfarin ár og lyfta liðinu upp á hærri stall. Í dag gekk það mjög vel. Það skiptir engu hver mótherjinn er, við viljum vinna alla leiki.

Rúnar Kristinsson
Rúnar Kristinsson Ljósmynd/Kristinn Steinn

Auðvitað var sérstakt fyrir mig að spila á móti KR. Maður vill ekki gera þeim neitt illt, en ég þarf að sinna minni vinnu og eins vel og ég get,“ sagði Rúnar.

En vonaðist hann til að KR myndi tapa í dag í fyrsta skipti á ævinni?

„Ég vonaðist eftir sanngjörnum úrslitum í dag og að betra liðið myndi vinna og ég held það hafi verið niðurstaðan. Við vorum að verjast ofboðslega vel og þegar við náðum að tengja nokkrar sendingar frammi erum við stórhættulegir. Sigurmarkið er glöggt merki um það.“

Fram hefur aðeins fengið á sig eitt mark í fyrstu þremur deildarleikjunum undir stjórn Rúnars, en liðið fékk á sig gríðarlega mikið af mörkum á síðustu leiktíð.

Rúnar Kristinsson var lengi hjá KR.
Rúnar Kristinsson var lengi hjá KR. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

„Það var auðvelt fyrir mig að koma inn og lesa í stöðutöfluna frá því í fyrra. Fyrsta verkefnið var að styrkja varnarleikinn og gera betur þar. Fram skoraði meira í fyrra og við þurfum að finna jafnvægi þar á milli. Maður vill ekki að allir leikir endi 1:0. Þetta er sú leið sem við förum núna, með þann leikmannahóp sem ég er með.“

Rúnar viðurkennir að hann hafi gleymt því í augnablik að hann væri ekki að þjálfa KR heldur mótherjann.

„Það var eitt innkast, þá öskraði ég KR og KR fékk svo innkastið. Gummi fyrirliði leit á mig brosandi og við hlógum allir. Ég mismæli mig stundum. Ef Fram vinnur ekki deildina vona ég að KR gerir það og það eru meiri líkur að KR geri það.

Ég er KR-ingur og það vita það allir, en það breytir því ekki að ég legg mig 150 prósent fram hjá Fram, alla daga. Það er ekki vandamál fyrir mig, mér finnst það frábært,“ sagði Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert