Öruggt hjá Íslandsmeisturunum í upphafsleiknum

Hailey Whitaker með boltann í dag. Margrét Árnadóttir sækir að …
Hailey Whitaker með boltann í dag. Margrét Árnadóttir sækir að henni. mbl.is/Óttar

Íslandsmeistarar Vals hófu titilvörnina á þægilegum sigri, 3:1, gegn Þór/KA í upphafsleik Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Hlíðarenda í dag.

Amanda Andradóttir skoraði tvívegis og Jasmín Erla Ingadóttir skoraði í sínum fyrsta deildarleik fyrir Val.

Valur var einkar sannfærandi og hefur tímabilið með besta móti. Amanda var stórhættuleg allan leikinn, Fanndís Friðriksdóttir var með áætlunarferðir upp vinstri kantinn og Jasmín Erla náði afar vel saman við þær tvær.

Tvö mörk Amöndu á þremur mínútum

Jafnræði var með liðunum til að byrja með þar sem bæði lið fengu prýðis færi.

Það var hins vegar Valur sem braut ísinn á 24. mínútu. Amanda Andradóttir skoraði þá fyrsta mark Íslandsmótsins þegar hún teygði sig í boltann eftir laglega fyrirgjöf Jasmínar Erlu frá vinstri, var á undan Hörpu Jóhannsdóttur í marki Þórs/KA og tæklaði boltann niður í nærhornið.

Strax í næstu sókn fékk Þór/KA kjörið tækifæri til þess að jafna metin tafarlaust. Eftir góða sókn kom Amalía Árnadóttir boltanum til hliðar á Karen Maríu Sigurgeirsdóttur sem tók skot fyrir miðjum vítateig en það fór beint á Fanneyju Ingu Birkisdóttur í marki Vals.

Amanda var svo aftur á ferðinni örskömmu síðar, á 27. mínútu, og tvöfaldaði forystu heimakvenna. Hún fékk boltann þá frá Fanndísi Friðriksdóttur vinstra megin við D-bogann, lét þéttingsfast skot ríða af og það hafnaði í nærhorninu, óverjandi fyrir Hörpu.

Eftir hálftíma leik fékk Amanda tækifæri til þess að fullkomna þrennuna á aðeins sex mínútum en skalli hennar eftir fyrirgjöf Fanndísar fór yfir markið.

Áður en fyrri hálfleikur var úti gerði Sandra María Jessen sig líklega í tvígang fyrir gestina. Í fyrra skiptið tók hún laust skot úr vítateignum sem fór beint á Fanneyju Ingu og í það síðara slapp Sandra María ein í gegn en fór illa að ráði sínu þegar henna mistókst að fara framhjá markverðinum.

Staðan í leikhléi var því 2:0, Val í vil.

Glæsimark Söndru Maríu

Eftir tæplega klukkutíma leik kom Amanda boltanum á fyrirliðann Berglind Rós Ágústsdóttur við markteiginn í kjölfar hornspyrnu en Berglind Rós fór illa að ráði sínu og skaut yfir úr sannkölluðu dauðafæri.

Amanda var enn í leit að þrennunni og náði föstu vinstri fótar skoti eftir rúmlega klukkutíma leik en Hörpu tókst að verja.

Á 70. mínútu skoraði Valur þriðja mark sitt. Amanda tók þá aukaspyrnu af hægri kanti, Þór/KA tókst ekki að koma boltanum frá, Jasmín Erla náði boltanum utarlega í vítateignum hægra megin og skoraði með góðu skoti á lofti.

Áfram hélt Valur að ógna og hefði hæglega getað bætt við fleiri mörkum.

Það var hins vegar Þór/KA sem átti síðasta orðið þegar Sandra María skoraði með stórkostlegu skoti beint upp í samskeytin í kjölfar mikils darraðardans í vítateig Vals tveimur mínútum fyrir leikslok.

Mínútu síðar fékk Sandra María dauðafæri til að minnka muninn enn frekar en skallinn hennar fór yfir.

Undir blálokin slapp Amanda alein í gegn en vippaði boltanum framhjá Hörpu og markinu.

Valur 3:1 Þór/KA opna loka
90. mín. Amanda Andradóttir (Valur) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert