Sannfærandi Víkingar lögðu Blika í stórleiknum

Nikolaj Hansen úr Víkingi og Damir Muminoivc hjá Breiðabliki eigast …
Nikolaj Hansen úr Víkingi og Damir Muminoivc hjá Breiðabliki eigast við í kvöld. mbl.is/Óttar

Íslandsmeistarar Víkings unnu virkilega góðan sigur á Breiðabliki, 4:1, í stórleik umferðarinnar í Bestu deild karla í knattspyrnu í Víkinni í kvöld. Víkingar eru á toppnum með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir.

Fyrri hálfleikurinn var mikil skemmtun og bauð upp á flest allt sem góðir fótboltaleikir þurfa að hafa. Blikar mættu af krafti en eftir fyrstu mínúturnar tóku Víkingar hægt og rólega völdin og stýrðu leiknum nánast algjörlega.

Fyrsta mark leiksins kom á 18. mínútu en Danijel Dejan Djuric átti þá fyrirgjöf sem Höskuldur Gunnlaugsson náði ekki að hreinsa frá. Boltinn barst til Ara Sigurpálssonar á fjærsvæðinu sem tók boltann vel niður og kláraði af yfirvegun framhjá Antoni Ara Einarssyni í marki Breiðabliks.

100 sekúndum síðar voru Víkingar svo búnir að tvöfalda forystu sína. Karl Friðleifur Gunnarsson átti þá virkilega góða fyrirgjöf frá vinstri á Nikolaj Hansen sem skallaði boltann í netið. Nikolaj var einfaldlega sterkari en varnarmenn Breiðabliks í baráttunni í teignum, virkilega vel gert hjá Dananum.

Blikar voru þó ekki af baki dottnir en á 37. mínútu minnkuðu þeir muninn. Damir Muminovic átti þá fast skot að marki eftir hornspyrnu en boltinn breytti um stefnu af Kristóferi Inga Kristinssyni áður en hann endaði í markinu. Ingvar Jónsson, markvörður Víkings, var farinn af stað í hornið og kom því engum vörnum við þegar boltinn breytti um stefnu.

Seinni hálfleikurinn var rólegri en sá fyrri en Víkingur var áfram betri aðilinn. Fátt var um færi en á tveggja mínútna kafla þegar tæpt korter var eftir gerði liðið út um leikinn. Á 76. mínútu skoraði Danijel Dejan Djuric þriðja mark Víkings eftir góðan undirbúning Ara og varamannsins Helga Guðjónssonar og það var svo Ari sem skoraði fjórða markið tveimur mínútum síðar. Hann fékk boltann þá vinstra megin, fór með hann inn á völlinn og smurði hann svo alveg út við fjærstöngina, óverjandi fyrir Anton Ara. Sannarlega mark af dýrari gerðinni hjá Ara.

Fleiri urðu mörkin ekki í leiknum og heldur sigurganga Víkings því áfram. Liðið er það eina í deildinni með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjár umferðirnar. Breiðablik er með sex stig líkt og ÍA, KR, Fram og FH.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

Víkingur R. 4:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Breiðablik fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert