„Mér líst mjög vel á framhaldið,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir sigur liðsins á Keflavík, 3:0, í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.
Breiðablik er í efsta sæti deildarinnar á markatölu eftir fyrstu umferð en Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði tvö mörk og Agla María Albertsdóttir eitt fyrir Kópavogsliðið.
„Ég er mjög sátt með sigurinn og einnig með að halda hreinu. Við höfum ekki haldið hreinu einhverja leiki í röð og því var það kærkomið.
Þetta var samt ekkert besta frammistaðan okkar. En við vorum mjög öruggar og buðum engri hættu heim. Ég er mjög ánægð með þrjú stig úr fyrsta leik,“ sagði Ásta.
Mörk Breiðabliks voru falleg en ólík. Ásta segir það gott.
„Þrjú mjög ólík mörk. Gott að geta skorað úr ýmsum áttum. Ég er virkilega ánægð með Vigdísi að skora tvö mörk og hefja sumarið almennilega. Síðan var þriðja markið sérstaklega flott, byrjaði frá aftasta manni. Beint frá æfingasvæðinu.“
Ásta var í miðverði í kvöld en hún hefur mest allan ferilinn spilað sem bakvörður. Það er breyting hjá nýja þjálfarateymi liðsins, Nik Chamberlain og Eddu Garðarsdóttur, að hafa fyrirliðann í miðverði.
„Mér finnst það fínt. Þetta var ákvörðun sem var tekin um leið og Nik og Edda komu. Ég er búin að vera að æfa þetta í vetur og þau hafa verið góð í að þjálfa mig að spila þessa stöðu.
Mér líður nokkuð vel í henni og finnst við vera að spila vel saman í vörninni. Þetta er komið til að vera.“
„Mér líst mjög vel á framhaldið en við höldum okkur á jörðinni. Þetta er fyrsti leikur og fyrstu þrjú stigin. Við lítum vel út og erum í hörkuformi sem mun nýtast okkur vel í framhaldinu,“ bætti Ásta við í samtali við mbl.is.